Tveir sigrar og tveir tapleikir
Um helgina var þó nokkuð um að vera hjá yngri flokkunum Tindastóls í körfu og þétt dagskrá í Síkinu, samkvæmt vef Tindastóls. Króksamótið var haldið á laugardeginum auk þess sem fjórir leikir voru spilaðir, þar af þrír heimaleikir.
Á laugardeginum fór drengjaflokkur suður og spilaði gegn Breiðablik. Drengjaflokkur sigraði 70-85. Í þessum leik var Pétur Rúnar stigahæstur með 25 stig, Hannes með 23 stig, Viðar 14, Finnbogi var með 10, Hlynur 9 og Pálmi 4.
Stúlknaflokkur lék heimaleik í Síkinu gegn Haukum. Sá leikur fór 35-52 fyrir Haukum. Bríet var stigahæst hjá stelpunum með 13 stig, Linda með 11, Jóna með 6, Hafdís 3 og Telma 2.
Á sunnudag tók 10. flokkur karla á móti Keflavík í bikarleik. Samkvæmt vef Tindastóls gekk Stólastrákum ekki nógu vel og töpuðu leiknum, 37-93.
Þá kom Snæfell/Skallagrímur og keppti á móti unglingaflokki. „Aðkomuliðið mætti mjög fámennt sökum veikinda og meiðsla, eða aðeins með fimm menn. Af þeim var einn leikmaður veikur og kláraði því ekki leikinn. Tindastólsmenn léku þá einnig með fjóra leikmenn inn á, vel gert hjá þeim,“ segir á vefnum en Tindastóll hafði sigur, 100-60.