Tvö verndarsvæði í byggð í Skagafirði
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur staðfest tillögur að fimm nýjum verndarsvæðum í byggð en tilgangur slíkra svæða er að stuðla að verndun byggðar vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis þeirra, eins og fram kemur á vef menntamálaráðuneytisins. Tillögur um verndarsvæði koma frá viðkomandi sveitarfélagi en Minjastofnun Íslands veitir sveitarfélögum ráðgjöf við undirbúning tillagna og skilar einnig umsögn sinni til ráðherra.
Tvö svæðanna eru í Skagafirði, annars vegar gamli bæjarhlutinn á Sauðárkróki og hins vegar Plássið og Sandurinn á Hofsósi en önnur eru framdalurinn í Skorradal, vesturhluti Víkur í Mýrdal og Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.
Gamli bærinn á Sauðárkróki afmarkast að norðan af nyrsta íbúðarhúsi Sauðárkróks, að austan af Strandvegi, að sunnan af Kirkjutorgi og Kirkjuklauf (Hlíðarstíg) og að vestan af Nöfum.
Plássið og Sandurinn á Hofsósi er svæðið um þrír hektarar að stærð og afmarkast af Brekkunni að norðan, af brekkubrún Bakkans að austan og sjó og hafnargarði að sunnan og vestan.
Sjá nánar HÉR