Umhverfisviðurkenningar Skagafjarðar

Í síðustu viku voru umhverfisviðurkenningar Sveitarfélagsins Skagafjarðar veittar við hátíðlega athöfn í Húsi frítímans á Sauðárkróki. Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar hefur haft umsjón með útnefningu þessara viðurkenningar fyrir sveitarfélagið sl. 15 ár og er hans helsta fjáröflun. Í ár voru veittar viðurkenningar í sex flokkum og hafa þá verið veittar 94 viðurkenningar á þessum 15 árum.
Það var Erla Björk Örnólfsdóttir, formaður klúbbsins, sem afhenti viðurkenningarnar sem að þessu sinni komu í hlut eftirfarandi:
Hátún 1, býli með búskap. Eigendur Gunnlaugur Hrafn Jónsson og Helga Sjöfn Helgadóttir.
Syðra-Skörðugil, býli án búskapar. Ásdís Sigurjónsdóttir og Einar E. Gíslason, sem lést fyrir skömmu.
Ekki var hægt að gera upp á milli tveggja garða svo það voru veittar tvær viðurkenningar í flokknum lóð í þéttbýli. Annars vegar komu þær í hlut Ástu Pálínu Ragnarsdóttur og Magnúsar Sverrissonar í Drekahlíð 8 og hins vegar Margrétar Grétarsdóttur og Páls Sighvatssonar, Brekkutúni 4. Báðir garðarnir eru á Sauðárkróki.
Hóladómkirkja þótti skarta fallegustu lóð við opinbera stofnun og tóku formaður sóknarnefndar, Laufey Guðmundsdóttir, og organistinn, Jóhann Bjarnason, við viðurkenningaskildinum.
Viðurkenningu fyrir snyrtilegasta umhverfi við fyrirtæki hlaut Bændagistingin á Hofsstöðum. Gestgjafar og eigendur þar eru hjónin Elínborg Bessadóttir og Vésteinn Vésteinsson.
Viðurkenningu fyrir einstakt framtak féllu í skaut þeim Herdísi Sæmundardóttur og Guðmundi Ragnarssyni en þau stóðu að því að reisa minnisvarða um Hrafna-Flóka í mynni Flókadals í Fljótum og vígt var árið 2012.
Nánar er hægt að lesa um viðurkenningarnar í Feyki vikunnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.