Ungir iðkendur tóku fyrstu skóflustunguna að nýjum gervigrasvelli

Fjölmargir mættu með skóflur af ýmsum stærðum og gerðum til að taka fyrstu skóflustunguna að gervigrasvellinum á Sauðárkróki. Mynd: PF.
Fjölmargir mættu með skóflur af ýmsum stærðum og gerðum til að taka fyrstu skóflustunguna að gervigrasvellinum á Sauðárkróki. Mynd: PF.

Það ríkti mikil eftirvænting í hópi þeirra ungu knattspyrnuáhugamanna sem mættu á æfingasvæði íþróttavallarins sl. mánudag, vopnaðir skóflum og rekum og jafnvel stungugöflum. Langþráð stund var upprunnin þegar taka skyldi fyrstu skóflustunguna að nýjum gervigrasvelli sem gerbreyta mun allri æfingaaðstöðu á Sauðárkróki og Skagafirði öllum.

Þegar krakkarnir höfðu mundað verkfærin og tekið sínar skóflustungur fengu þeir Bergmann Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, og Ómar Bragi Stefánsson, fyrrverandi formaður og einn ötulasti hvatamaður að þessum framkvæmdum, að stíga upp í volduga vinnuvél Víðimelsbræðra og taka eina stóra skóflu. Gekk það áfallalaust fyrir sig.

Svo fengu stóru strákarnir að prófa gröfuna. Mynd: PF.

 Bergmann segir að gervigrasvöllur eigi eftir að gera félaginu kleift að bjóða upp á sambærilega aðstöðu og önnur félög hafa. „Við höfum verið að eyða vetrinum á parketi og á minnsta gervigrassparkvelli landsins og því miður höfum við að mínu mati verið að dragast aðeins aftur úr þrátt fyrir góða viðleitni á sumrin að ná hinum liðunum. En með þessum velli getum við verið, í fyrsta lagi, að bjóða börnunum okkar upp á fyrsta flokks aðstöðu yfir allt árið og einnig þjálfurum upp á fyrsta flokks aðstöðu til að koma hingað og vinna. Það er stóri munurinn í þessu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir