Ungmennaþing SSNV fór fram á Blönduósi

Sprækt ungt fólk á Norðurlandi vestra. MYND AF SSNV.IS
Sprækt ungt fólk á Norðurlandi vestra. MYND AF SSNV.IS

Árlegt Ungmennaþing SSNV var haldið þriðjudaginn 7. október undir yfirskriftinni „Ungt fólk mótar Norðurland vestra“. Fulltrúar frá öllum sjö skólum landshlutans tóku þátt í þinginu, sex grunnskólum og einum framhaldsskóla. Sagt er frá því á vef SSNV að alls voru 40 ungmenni á aldrinum 13–18 ára. Markmið dagsins var að gefa unga fólkinu rödd og tækifæri til að móta hugmyndir að aðgerðum í landshlutanum. Þau unnu í hópum og höfðu val um þrjá flokka: útivist og samgöngur, viðburðir og afþreyingarsvæði. Afrakstur vinnunnar voru tíu fjölbreyttar hugmyndir sem nú verða teknar til frekari úrvinnslu og kynntar viðeigandi aðilum.

„Vinnustofur dagsins voru leiddar af Láru Kristínu Skúladóttur og Guðrúnu Gyðu Franklín, sem fengu ungmennin til að hugsa skapandi og setja fram hugmyndir sínar á hvetjandi hátt. SSNV þakkar þeim kærlega fyrir frábært starf.

Einnig kom Inga Rún Björnsdóttir frá Betri svefn og hélt lifandi og fræðandi fyrirlestur; „Satt eða svefnmýta“, þar sem þátttakendur fengu að spreyta sig á að greina á milli staðreynda og algengra mýta um svefn og heilsu.

Að lokinni vinnunni kom Emmsjé Gauti fram, flutti tónlistaratriði og ræddi við ungmennin um sköpun, lagasmíð og það að fylgja sínum draumum.

Í lok dags fengu ungmennin tækifæri til að skrá sig á lista fyrir nýtt Ungmennaráð Norðurlands vestra, sem verður stofnað í framhaldi af þinginu.

SSNV vill þakka öllum þeim sem tóku þátt í deginum, ekki síst frábæra unga fólkinu okkar sem sýndi mikinn metnað, frumkvæði og jákvæðni. Framtíðin er sannarlega björt á Norðurlandi vestra og við hjá SSNV hlökkum til að halda áfram að efla samstarf og skapa tækifæri fyrir ungt fólk á svæðinu,“ segir í fréttinni.

Fleiri fréttir