Unnið að endurbótum á Háagerðisvelli

Töluverðar framkvæmdir hafa verið hjá Golfklúbbi Skagastrandar síðustu vikur. Samkvæmt heimasíðu svf. Skagastrandar kom Háagerðisvöllur þokkalega undan vetri þrátt fyrir að kal hafi verið með meira móti.

Á meðal framkvæmda eru endurbætur á golfvellinum, lagt malarlag á planið við klúbbhúsið og áhaldageymsluna og verið er að setja niður nýja rotþró og frárennslislagnir.

Jafnframt hefur flötin á braut 5 verið endurmótuð og nýtt gras lagt á hana, auk þess sem næsta umhverfi flatarinnar var endurbætt. „Þökurnar koma frá Suðurlandi og er grasið sérstakt „golfvallargras“,“ segir á heimasíðu svf. Skagastrandar.

Sorphreinsun Vilhelms hefur unnið að öllum þessum verkefnum. Félagar í golfklúbbnum hafa einnig unnið að þökulagningunni.

Áhugasamir hvattir til að mæta

Boðið upp á golfkennslu fyrir íbúa Skagastrandar undir handleiðslu Huldu Birnu Baldursdóttur. „Áhugasamir eru hvattir til að mæta á golfvöllinn og reyna sig við þessa skemmtilegu og áhugaverðu íþrótt,“ segir loks á heimasíðunni.

 

Fleiri fréttir