Upplýsingar á vef landlæknis vegna kórónaveirunnar

Mynd: landlaeknir.is
Mynd: landlaeknir.is

Heilbrigðisráðuneytið vekur á vef sínum athygli á upplýsingamiðlun sóttvarnalæknis vegna kórónaveirunnar (2019-nCoV) á vef embættis landlæknis. Þar er að finna upplýsingar til heilbrigðisstarfsfólks, leiðbeiningar og fræðsla fyrir almenning, upplýsingar og fræðsla tengd alþjóðaflugi og fleira. Kórónaveiran á, eins og kunnugt er, upptök sín í Wuhan héraði í Kína og hafa nú nærr 6.000 tilfelli greinst af henni og um 130 manns hafa látist. Veiran hefur nú greinst í 15 löndum.

Á vef landlæknis kemur fram að kórónaveirur eru nokkuð algeng orsök kvefs og öndunarfærasýkinga almennt hjá mönnum en þegar ný afbrigði berast úr dýrum í menn er þekkt að kórónaveirusýkingar geti verið alvarlegar. Ekki er til neitt bóluefni gegn veikinni og engin sérstök meðferð til við henni. Á vef landlæknis segir að einkennin geti verið svipuð og inflúensu í upphafi. Einkenni inflúensunnar koma oftast snögglega og lýsa sér með hita, hósta, hálssærindum, höfuðverk, vöðvaverkjum og almennri vanlíðan. Kórónaveiran getur snögglega valdið i neðri loftvegasýkingu með lungnabólu sem getur gert öndun erfiða, en leiðir sjaldnar til einkenna frá efri öndunarfærum eins og hálssærindum og kvefi.
Til að forðast smit vegna kórónuveiru, svipað og inflúensu, er mikilvægt að beita almennu hreinlæti, s.s. handþvotti og/eða handsprittun ef ekki er aðgengi að vatni og sápu.

Sóttvarnalæknir mun birta nýjar og mikilvægar upplýsingar á vef embættisins eftir því sem efni standa til.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir