Urðun riðufjár umdeild
Hreppsnefnd Húnavatnshrepps leggst gegn fyrirætlunum um að flytja riðuveikan fjárstofn úr Skagafirði til förgunar og urðunar í hreppnum. Með því sé verið að taka óþarfa áhættu um riðusmit á milli svæða.
Riða hefur fimm sinnum komið upp í Skagafirði á liðnum fjórum árum, nú síðast um miðjan nóvember í Álftagerði, og í kjölfarið þarf að skera niður alls um 400 fjár. Þá þarf að urða hræin og stendur til að gera það í Húnavatnshreppi vestan Blöndu. Því mótmælir hinsvegar hreppsnefnd Húnavatnshrepps og Jón Gíslason sem situr í nefndinni, segir ástæðu þess vera hræðslu við smitefnið.
Sigurjón Þórðarson heilbrigðisfulltrúi segir að leitað hafi verið til hans en hann hafi ekki lögsögu í málinu. Það hafi hins vegar dýralæknaembættið en það og heilbrigðiseftirlitið eru sammála um að skynsamlegast væri að hafa urðunarstaði sem þjóna þessum tilgangi sem fæsta á Norðurlandi og á þessum stað hefur áður verið urðað riðusmitað fé.