Urðunarstaðurinn Stekkjarvík formlega opnaður
Í dag var urðunarstaðurinn Stekkjarvík formlega opnaður en hann er samstarfsverkefni sex sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði sem stofnuðu byggðasamlagið Norðurá um verkefnið. Umsjónarmaður með urðunarstaðnum og eini starfsmaður Norðurár bs er Fannar J. Viggósson.
Lóð urðunarsvæðisins er 30 ha en fyrsti áfangi urðunarhólfs er 2,7 ha. Samtals verða um 6 ha teknir undir urðunarhólf í fjórum áföngum. Hólfið er 20 m djúpt og útgrafið jarðefni í 1. áfanga er 390 þús. rúmmetrar. Gert er ráð fyrir að þessi áfangi endist í allt að sex ár en næstu áfangar hlutfallslega betur þar sem miðja hólfsins, sem verður fyllt upp í lokin, er hluti af fyrsta áfanga.
Heildarkostnaður við verkið er orðinn tæpar 360 milljónir króna með vsk. Þar af er kostnaður við gerð urðunarhólfsins um 230 milljónir og bygging og frágangur húss og vogar um 37 millj. Kostnaður við forkannanir, umhverfismat, hönnun, rannsóknir, eftirlit og leyfisgjöld er um 70 millj. og vélar og búnaður eru um 14.5 millj.
Ekki er ætlast til að einstaklingar komi með sorp til urðunar heldur nýti sér næstu móttöku- eða flokkunarstöðvar sorps. Viðskiptavinir Norðurár bs. verða því fyrst og fremst rekstraraðilar móttökustöðvanna og aðrir stærri úrgangslosendur.
Með opnun urðunarstaðar í Stekkjavík verður fjórum urðunarstöðum á Norðurlandi lokað en það eru Draugagil við Blönduós, Neðri-Harrastaðir við Skagasttrönd, Skarðsmóar við Sauðárkrók og Glerárdalur við Akureyri.
Meðfylgjandi eru símamyndir sem teknar voru í Stekkjarvík í dag.