Vakti athygli fyrir veiðar nálægt Vesturós Héraðsvatna
Þær vöktu athygli, er til sáu, ferðir fiskiskips alveg í botni Skagafjarðar sl. fimmtudagskvöld, „nánast undir brúargólfinu á vestari kvísl Héraðsvatna“, eins og eigandi myndar komst að orði í pósti til Feykis. Fannst viðkomandi að skipið væri komið full nálægt landi eða ós Héraðsvatnanna.
Þegar Feykir leitaði skýringa hjá Skagafjarðarhöfnum upplýstist að fleyið, Þorleifur EA 88, er í svokölluðu netaralli fyrir Hafrannsóknarstofnun. Samkvæmt Fiskistofu landaði Þorleifur rúmum 6,6 tonnum daginn eftir á Sauðárkróki.