Varað við bikblæðingum á þjóðvegi 1
Sólin skín og það er hlýtt og notalegt á landinu. Flestir gleðjast yfir þessu og hafa verið glaðir í talsverðan tíma en það er ekki víst að ökumenn sú kátir. Lögreglan á Norðurlandi vestra vekur athygli á umtalsverðum bikblæðingum víðsvegar um umdæmið, sér í lagi í nágrenni Víðigerðis og Hvammstanga.
Ökumenn eru beðnir um að gæta sérstakrar varúðar af þessum sökum.
Það má reikna með talsverðri umferð í umdæminu þar sem margur maðurinn hyggst mæta á körfuboltaleik á Króknum í kvöld. Spurning hvort bifreiðar Garðbæinga og Tindastólsfólks á höfuðborgarsvæðinu taki hluta af þjóðvegi 1 með sér heim?
Bikblæðingarnar einskorðast ekki við Norðurland vestra því einnig er varað við bikblæðingum á Öxnadalsheiði, á Holtavörðuheiði og víða í Borgarfirði svo eitthvað sé nefnt. Það vill reyndar þannig til að Skagafjörður er bikblæðingalaust svæði sem stendur.
Munum að fara gætilega og það er vissara að hægja hraðann þegar ekið er þar sem blkblæðingar eru.