Varaþingmaður Samfylkingar gengur úr flokknum
Dv.is segir frá því að Þórður Már Jónsson, annar varaþingmaður Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi , hefur sagt sig úr flokknum. Ástæðan er óánægja hans með að samningaleiðin skuli fari í fiskveiðistjórnunarkerfinu.
MMR birti í dag nýja könnun þar sem 71 prósent svarenda eru hlynntir því að stjórnvöld afturkalli fiskveiðiheimildir og úthluti þeim aftur með breyttum reglum. Á bloggsíðu sinni segir Þórður Már að augljóst sér að þetta sé vilji þjóðarinnar. 93 prósent stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar vilja sömuleiðis að fiskveiðiheimildir verði innkallaðar samkvæmt könnuninni.
„En hvaða leið leggja þessir flokkar á borð fyrir kjósendur sína? Jú, þeir leggja hina svokölluðu "samningaleið" fyrir fólkið sem lausn sem þeir reyna að ljúga í fólk að komi til með að sætta deilur um kerfið, uppfylla álit mannréttindanefndar SÞ og að tryggja þjóðinni sanngjarnt afgjald fyrir notkun auðlindarinnar. Það ætti að vera óþarfi að fara yfir þetta hér, en í stuttu máli þá er með þeirri leið verið að tryggja núverandi kvótahöfum afnotarétt til áratuga með samningum! Það stendur til að festa núverandi kvótakerfi endanlega í sessi, og það í boði vinstri stjórnar sem lofaði því að stokka það upp!!!!“ skrifar Þórður Már í bloggfærslunni þar sem hann segir sig úr flokknum.
Hann kveðst hafa gengið í Samfylkinguna fyrir síðustu kosningar vegna þeirrar sannfæringar sinnar að þar væri mestur möguleiki á að koma í gegn breytingum á kerfinu enda kosningaloforð beggja flokka að innkalla aflaheimildir.
„En eftir ótrúlega atburðarás sem byrjaði á því að nefnd var skipuð þar sem hagsmunaaðilum var gefinn laus taumurinn til þess að ákveða hvort innköllunin yrði framkvæmd eða ekki var niðurstaðan nýlega kunngerð: Samningaleið, svikaleið þar sem forræði Íslendinga yfir auðlindinni skyldi endanlega afhent útgerðum. LÍÚ fékk að ákveða hvort loforð ríkisstjórnarsáttmálans skyld efnt, dómurinn var einfaldur; LÍÚ vill hinn endanlega frið fyrir ágangi almennings sem í einfeldni sinni hélt að auðlindin væri sameiginleg auðlind allra Íslendinga. LÍÚ og skósveinasveit þeirra hefur talað. Vald þeirra er ofar loforðum flokkanna til kjósenda sinna. Vald LÍÚ er ofar þjóðarvilja.“
„Ég er varaþingmaður Samfylkingarinnar og það í kjördæmi Guðbjartar Hannessonar sem leiddi svikanefndina og skrifaði upp á þjóðsvikaleiðina, þ.e. samningaleiðina. Leið sem Guðbjartur reynir því miður að halda fram að uppfylli þær kröfur sem bæði yfirgnæfandi hluti Íslendinga gerir, sem og þær kröfur sem við höfum fyrir langt löngu gert á okkur sjálf með stjórnarskrá okkar og með þeim alþjóðlegu mannréttindasáttmálum sem við höfum gengist undir. Mér liggur við að segja að menn hljóti að vera brjálaðir að halda að það sé hægt að selja almenningi þá hugmynd að samningaleiðin sé til þess fallin að uppfylla nauðsynlegar kröfur um mannréttindi og jafnræði, sem og þær kröfur sem almenningur í þessu landi gerir. Það stríðir mjög alvarlega gegn sannfæringu minni, eftir þessi ótrúlegu svik, að halda áfram á þessari braut. Það stríðir gegn sannfæringu minni að bakka upp fólk sem er reiðubúið til þess að svíkja málstað sinn jafn miskunnarlaust og forysta Samfylkingarinnar hefur gert í þessu máli. Því sé ég mér ekki annað fært en að segja mig hér með úr flokknum og þar með frá varaþingmannsstöðu minni.“
Sigurður Mikael Jónsson (mikael@dv.is)
Fréttin er tekin af heimasíðu DV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.