Vegna vegaframkvæmda í Húnavatnshreppi

Á síðasta fundi hreppsnefndar Húnavatnshrepps, miðvikudaginn 9. apríl sl., var tekið fyrir erindi frá frá Vegagerðinni, þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi til að vinna efni í malarslitlag úr fjórum námum við Kjalveg. Námurnar eru Áfanganáma, sunnan Tvískiptihæðar, sunnan Kúlukvíslar og við Stóralæk. Áformað er að vinna 3000 rúmmetra í hverri námu í sumar.

Framangreindar námur eru allar opnar og hafa verið notaðar af Vegagerðinni áður, en eru ekki á aðalskipulagi Húnavatnshrepps. Framkvæmdaleyfi verður því ekki gefið út fyrr en aðalskipulaginu hefur verið breytt. Í umsókn sinni fer Vegagerðin þess á leit að veitt verði framkvæmdaleyfi til bráðabirgða á meðan unnið er að nauðsynlegum breytingum á aðalskipulaginu.

Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir að hefja undirbúning að breytingu á aðalskipulagi Húnavatnshrepps vegna náma sem Vegagerðin hyggst nota á komandi árum í sveitarfélaginu. Jafnframt samþykkir nefndin að gera óverulega breytingu á aðalskipulagi Húnavatnshrepps vegna þeirra efnisvinnslu sem fyrirhuguð er við Kjalveg í sumar. Vegagerðin mun bera kostnað af framangreindum breytingum. Afgreiðslur nefndarinnar staðfest í sveitarstjórn.

 

Fleiri fréttir