Veiðin í Blöndu ævintýri líkust
„Okkur leiðist ekki að færa ykkur fréttir af Blöndu, enda er veiðin þar ævintýri líkust þessa dagana,“ segir í frétt á laxveiðivefnum lax-a.is sem birtist í lok síðustu viku. Þar segir ennfremur að Blanda sé komin vel yfir 600 laxa í heildina, en samkvæmt veiðitölum á angling.is, trónir Blanda nú í öðru sæti á lista yfir 75 aflahæstu ár landsins, á eftir Norðurá.
Í fréttinni kemur jafnframt fram að svæði eitt í Blöndu sé líklega með einna bestu veiði á landinu sé miðað við stangarfjölda. „Við heyrðum af tveggja daga holli sem var með 100 laxa á stangirnar fjórar. Blanda er nú komin vel yfir 600 laxa. Við heyrðum í einum sem fékk fimm laxa á einum degi á svæði þrjú, þar af komu þrír í beit upp úr Lynghólma,“ segir ennfremur á lax-a.is.