Veitingastaðir á NLV komu vel út úr eftirlitsverkefni

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra hrinti framkvæmd í eftirlitsverkefni í vor þar sem veitingastaðir í landshlutanum voru til skoðunar. Samkvæmt heimasíðu heilbrigðiseftirlitsins tóku veitingamenn án undantekninga mjög vel í verkefnið og voru niðurstöður yfirleitt mjög góðar.

Áður en farið var af stað með verkefnið var bréf sent til allra veitingastaða á Norðurlandi vestra sem opnir eru allt árið og þeim tilkynnt um fyrirhugaða eftirlitsverkefni og í hverju það væri fólgið. Að kannaðir yrðu fyrirfram ákveðnir þættir og ljósmyndir teknar inn á veitingastöðunum, sem síðan yrðu birtar á heimasíðu eftirlitsins.

„Þeir þættir sem skoðaðir voru sérstaklega í verkefninu voru; hlífðarfatnaður starfsfólks, skráning á hitastigi, þrifaáætlun og meðferð matvæla. Í kjölfarið var lagt mat á þá þætti sem voru kannaðir og þeim gefin einkunn þ.e. hvort að niðurstaðan teldist; fullnægjandi, í lagi eða ófullnægjandi,“ segir um framkvæmd verkefnisins.

Á heimasíðu Heilbrigðiseftirlitsins má skoða niðurstöður verkefnisins.

Fleiri fréttir