Vélmennadans - Gísli Þór Ólafsson

Gísli Þór Ólafsson. Mynd: Teitur Már Sveinsson.
Gísli Þór Ólafsson. Mynd: Teitur Már Sveinsson.

Listamaðurinn Gísli Þór Ólafsson á Sauðárkróki hefur glatt skyntaugar fólks á ýmsa vegu í gegnum tíðina. Hefur hann ýmist staðið á leiksviði hjá Leikfélagi Sauðárkróks, plokkað bassann hjá Contalgen Funeral samið lög og gefið út diska og ljóðabækur. Fyrir skömmu leit Vélmennadans dagsins ljós en þar er á ferðinni fyrsta ljóðabók Gísla með nýju efni í sjö ár.

Gísli er fæddur árið 1979 á Sauðárkróki og hefur búið þar utan áranna 2002-2006 er hann var við nám við Háskóla Íslands. Þaðan útskrifaðist Gísli með BA gráðu í Almennri bókmenntafræði árið 2006.

Hann segir að áhugi á tónlist hafi kviknað á unga aldri, en ljóðaáhuginn kviknaði á unglingsárunum, og ekki skemmdi fyrir að vita af skáldinu Geirlaugi Magnússyni gangandi snjótroðna göngustíga bæjarins.

Um hvað fjallar bókin Vélmennadans?

„Bókin fjallar um vélmenni sem reynir að fóta sig í heimi manneskjunnar. Spurt er um gildi og hefðir í hinu hefðbundna og vanalega og hvort það gangi eins upp fyrir alla. Erum við kannski öll mótuð og forrituð? Eru vélin og tæknin að taka yfir líf manneskjunnar?

Fylgt er eftir þessum vandræðagangi vélmennis á spaugilegan hátt, sigrum og ósigrum. Undirliggjandi er alvarlegur og ádeilukenndur tónn.“

Bókin fjallar um vélmenni sem reynir að fóta sig í heimi manneskjunnar. Spurt er um gildi og hefðir í hinu hefðbundna og vanalega og hvort það gangi eins upp fyrir alla.

 Hvað hefur þú unnið lengi við bókina?

„Vinna við bókina tók tæp tvö ár og hófst á punktavinnu um áramótin 2015 og 2016. Ég hafði punktabók við náttborðið og skrifaði hugmyndir niður þegar þær skutu upp kollinum. Um þetta leyti var ég í uppsöfnuðu fríi og það kom sér vel í undirbúningsvinnunni. Gerð bókarinnar tók svo smátt og smátt á sig mynd og var að fullu lokið um haustið 2017.“

Var eitthvað sem kom þér á óvart við gerð bókarinnar?

„Oft kviknar hugmynd og þá hefst undirbúningsvinna, allt punktað niður sem gæti tengst þemanu eða hugmyndinni, eitthvað sem ég heyri í fréttunum, les í blöðum eða á netinu, sem dæmi. Oft verður hugmyndin svo að veruleika ef þetta sækir mjög fast á. Þá er unnið úr punktunum og smátt og smátt tekur handrit á sig mynd.

Þessi hugmynd sótti fast á og handritið náði að mótast þannig að úr varð bók. Þetta var í fyrsta skiptið sem hugmynd gekk upp frá seinustu bók (Sæunnarkveðja - sjóljóð, 2010), en ég hafði gert drög að tveimur handritum, alls ólíkum þessu, í kjölfar þeirrar bókar, en hvorugt þeirra varð að bók. Mér fannst skemmtilegt hvernig handritið þróaðist og ákvað að gefa mér góðan tíma. Um leið langaði mig að koma vissri ádeilu til leiðar, en samt með spaugilegu ívafi.“

Hefur þú gefið eitthvað út áður?

„Já, sex ljóðabækur og fjóra hljómdiska. Fyrsta bókin, Harmonikkublús kom út árið 2006. Í kjölfarið komu út fjórar ljóðabækur fram til ársins 2010. Þá kynntist ég Andra og Fúsa og Contalgenið byrjaði að taka á sig mynd. Árið 2012 kom svo út mín fyrsta sólóplata, Næturgárun. Þrjár plötur komu í kjölfarið fram til ársins 2016. Sama ár gaf ég út yfirlitsbók í tilefni af 10 ára útgáfuafmæli og heitir sú bók Safnljóð 2006-2016.

Vélmennadans er fyrsta ljóðabókin með nýju efni í sjö ár.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir