Við vinnum okkur út úr vandanum.
Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Nú þegar þjóðin kallar eftir lausnum og framtíðarsýn svara vinstriflokkarnir í ríkisstjórn ýmist út og suður eða með þögninni einni saman. Vinstri lausnin á vanda heimilanna er að hækka skatta og lækka laun opinberra starfsmanna. Vinstri lausnin í atvinnumálum er að hafna uppbyggingu orkufreks iðnaðar, svo sem í Helguvík og á Bakka. Sömuleiðis á að sleppa því að leita að olíu á landgrunni Íslands, ef marka má umhverfisráðherra Vinstri grænna, og láta atvinnutækifærin sem felast í hvalveiðum lönd og leið að mati fjármála- og sjávarútvegsráðherrans, Steingríms J. Atvinnutækifærin blasa við en vinstrimenn ætla EKKI að nýta þau.
Við skattleggjum okkur ekki út úr vandanum.
Sjálfstæðisflokkurinn er á allt annarri línu. Við teljum að við þessar erfiðu aðstæður í efnahagslífinu sé aðeins ein leið út úr vandanum: Vinna, vinna, vinna. Við eigum að hvetja fólk til að vinna sem mest – ekki refsa fyrir vinnugleði með því að leggja á hærri skatta, enda sýnir sagan að við skattleggjum okkur ekki út úr efnahagsvanda. Við eigum að nýta öll tækifæri til atvinnusköpunar – líka þau sem kalla á skynsamlega nýtingu orkuauðlinda. Við eigum að virkja, við eigum að veiða hval og við eigum að leita að olíu.
Samhengi hlutanna.
Sjálfstæðismenn skilja þetta samhengi hlutanna. Án kröftugra fyrirtækja sem skapa fjölbreytt störf verður ekki hægt að viðhalda velferðarkerfinu okkar, sem löngum hefur þótt til fyrirmyndar á alþjóðavettvangi. Kröftugt atvinnulíf mun aldrei geta átt rætur að rekja í ríkisreknum fyrirtækjum sem miðstýrt er frá skrifborði einstakra ráðherra líkt og virðist ætla að verða raunin hjá vinstriöflunum. Grunnurinn að sjálfstæðisstefnunni er frelsi einstaklingsins til athafna og það hefur aldrei átt betur við en nú. Hugmyndafræði vinstriflokkanna svarar ekki kalli þjóðarinnar um lausnir – það gerir hinsvegar hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins.
Gleðilegt sumar.
Birna Lárusdóttir, skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.