Víða skafrenningur og hálka

Víða er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á Norðurlandi og segir á vef Vegagerðarinnar að þæfingur sé utan Hofsóss og milli Akureyrar og Dalvíkur. Ófært er um Almenninga á Siglufjarðarvegi og um Dalsmynni. Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli eru lokaðir vegna snjóflóðahættu en staðan verður tekin í birtingu. Veginum um Víkurskarð hefur verið lokað vegna veðurs.
Á Vesturlandi er snjóþekja, hálka eða hálkublettir víðast hvar á vegum og skafrenningur nokkuð víða. Hálkublettir eða hálka eru á flestum leiðum Suðvestanlands en greiðfært er á Reykjanesbraut. Skafrenningur er á Sandskeiði og á Kjalarnesi, eftir því sem kemur fram aá vegagerdin.is.
Veðurstofan segir um Strandir og Norðurland vestra: Norðaustan 10-18 m/s og él, en norðan 8-15 eftir hádegi, hvassast úti við sjóinn. Hægari og úrkomuminna annað kvöld. Frost 0 til 7 stig.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Austlæg átt, 8-15 m/s og skýjað með köflum, en 15-23 með S-ströndinni þegar líður á daginn og stöku él syðst. Hiti 0 til 5 stig syðra, en frost annars 1 til 6 stig.
Á miðvikudag:
Gengur í austanstorm með talsverðri rigningu eða slyddu, en snjókomu til fjalla. Lengst af úrkomulítið fyrir norðan. Dregur talsvert úr vindi og úrkomu þegar líður á daginn. Heldur hlýnandi veður.
Á fimmtudag og föstudag:
Allhvöss eða hvöss sunnanátt með rigningu, en þurrt að kalla fyrir norðan. Fremur hlýtt í veðri.
Á laugardag:
Útlit fyrir að lægi og kólni með slyddu eða snjókomu A-lands, en annars þurrt að kalla.
Á sunnudag:
Útlit fyrir hæga vinda og bjartviðri, en vaxandi suðaustanátt með rigningu eða slyddu SV-til um kvöldið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.