Viðgerðir á Þverárfjallsvegi

Þessa dagana standa yfir framkvæmdir á Þverárfjallsvegi. Um er að ræða 18 km kafla. Undirbúningur framkvæmda hófst í síðustu viku en í gær var farið að fræsa upp veginn. Það er Borgarverk sem annast verkið og mun því ljúka síðla sumars. Sagt var frá þessu í Morgunblaðinu í gær.

Borgarverksmenn voru raunar þeir einu sem skiluðu inn tilboði í verkið, en þeir búa yfir tækjabúnaði sem fáir verktakar eiga hér á landi til að fræsa upp vegaklæðningar. Tilboðið hljóðaði upp á 62,5 milljónir króna sem var mjög nálægt kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar, eins og fram kom í frétt hér á vefnum á dögunum.

Þverárfjallsvegur var tekinn í notkun fyrir um áratug og liggur frá Skagastrandarvegi yfir á Sauðárkrók. Hefur vegurinn breytt miklu í samgöngumálum í Húnaþingi, Skagafirði og á Tröllaskaga. „Þetta er hins vegar vegur sem hefur goldið þess að viðhald síðustu árin hefur verið mjög takmarkað. Við erum að fá það í hausinn núna,“ sagði Jón Magnússon, verkfræðingur hjá Vegagerðinni á Sauðárkróki í samtali við Morgunblaðið í gær og bætti því við að vegfarendur mættu búast við einhverjum töfum á þessari leið á næstunni.

Fleiri fréttir