Viðræður um sameiningu að fara af stað að nýju

Sameiningarviðræður sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu eru nú að fara af stað aftur eftir nokkurt hlé, að því er fram kom í frétt á vef Ríkisútvarpsins í gær, en þær hafa legið niðri frá síðasta vori.

Sveitarfélögin fjögur í Austur-Húnavatnssýslu, Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd, hafa átt í viðræðum um sameiningu undanfarin misseri, eða allt frá síðari hluta ársins 2017. Í samtali við Ríkisútvarpið í gær segir Jón Gíslason, formaður sameiningarnefndar, að hlé hafi verið gert á viðræðunum í vor og ákveðið að bíða og sjá hvað yrði úr væntanlegri lagasetningu en nú séu viðræður að fara af stað að nýju. Jón segir að alltaf hafi verið horft til þess að viðræðum lyki með kosningum og sameining tæki gildi við næstu sveitastjórnarkosningar árið 2022.

Í frétt Ríkisútvarpsins var greint frá því að nú væru ellefu sveitarfélög á þremur stöðum á landinu að skoða sameiningu, fjögur í Austur-Húnavatnssýslu, tvö í Þingeyjarsýslu og fimm á Suðurlandi.

Fleiri fréttir