Vilja efla samkeppnisfærni Austur-Húnavatnssýslu
Einar K. Guðfinnsson og sex aðrir þingmenn úr Norðvesturkjördæmi hafa að nýju lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar. Markmiðið með átakinu er að efla samkeppnishæfni svæðisins. Sagt er frá þessu á vef Húnahornsins í dag.
Flutningsmenn ásamt Einari eru Ásmundur Einar Daðason, Haraldur Benediktsson, Guðbjartur Hannesson, Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Tillagan hljóðar þannig:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Markmiðið með átakinu er að efla samkeppnishæfni svæðisins og undirbúa það fyrir þá uppbyggingu sem fylgir orkunýtingu Blönduvirkjunar og jafnframt vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.“
Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram af þáverandi þingmönnum Norðvesturkjördæmis á síðasta löggjafarþingi en var ekki útrædd og er því flutt að nýju.
Í greinargerð með tillögunni segir að Norðurland vestra hafi gengið í gegnum miklar breytingar er varða atvinnuhætti mörg undanfarin ár. Fækkun starfa í hefðbundnum atvinnugreinum, svo sem sjávarútvegi og landbúnaði, hafi leitt til mikillar byggðaröskunar sem birtist í mikilli fólksfækkun sem vart á sér hliðstæður hér á landi hin síðari ár. Samkvæmt upplýsingum Byggðastofnunar hafi íbúum á svæðinu fækkað um tæplega 1.000 milli áranna 1997 og 2010. Til samanburðar voru íbúar Blönduóss um 880 árið 2011 þannig að fækkunin nemi rúmlega íbúafjölda þess sveitarfélags yfir 14 ára tímabil.
