Vilja ekki 20 metra há rafmagnsmöstur í garðinn sinn

Mæðgurnar Heiðrún Ósk Eymundsdóttir og Árdís Hekla Pétursdóttir í hestahólfinu í Saurbæ á þeim stað sem Blöndulína 3 mun liggja samkvæmt nýjustu tilllögu Svf. Skagafjarðar. Mynd: PF.
Mæðgurnar Heiðrún Ósk Eymundsdóttir og Árdís Hekla Pétursdóttir í hestahólfinu í Saurbæ á þeim stað sem Blöndulína 3 mun liggja samkvæmt nýjustu tilllögu Svf. Skagafjarðar. Mynd: PF.

Í Feyki, sem kom út í dag, er viðtal við Heiðrúnu Ósk Eymundsdóttur sem býr í Saurbæ í fyrrum Lýtingsstaðahreppi í Sagafirði. Þar rekur hún áhyggjur sínar gagnvart fyrirhugaðri leið Blöndulínu 3 sem samkvæmt nýjustu uppdráttum liggur rétt við íbúðar- og útihús á jörðinni og nánast yfir Systrasel, frístundahús sem staðsett er skammt frá bænum. Hún vill að farið verði hægt í sakirnar með ákvörðun línulagnarinnar og  vill að skoðað verði betur að leggja línuna í jörð.

Til stendur að breyta Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar eins og hægt er að sjá á heimasíðu þess en frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum til skipulags og byggingarfulltrúa fer senn að ljúka. Það sem mest hefur verið fjallað um í tillögunum, og mesti styrinn hefur staðið um, er lega Blöndulínu 3, sem er fyrirhuguð raforkulína Landsnets frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Þrjár leiðir um Svf. Skagafjörð hafa verið bornar upp sem ákjósanlegir kostir, svokölluð Efribyggðarleið, Kiðaskarð og Héraðsvatnaleið sem er sú sem sveitarfélagið teflir fram í tillögum sínum.

Það virðist sama hvaða leið verður fyrir valinu, alltaf munu háspennumöstrin verða gagnrýnd þar sem um mikil mannvirki er að ræða. Gera má ráð fyrir því að möstrin verði yfir 20 metra há sem er á pari við tvær íbúðablokkir á Sauðárkróki hvor ofan á annarri, sem þykir ágætt, ekki síst ef línan mun liggja örfáa tugi metra frá íbúðarhúsi og vinnuaðstöðu líkt og virðist ætla að verða hjá ábúendum í Saurbæ í fyrrum Lýtingsstaðahreppi. Samkvæmt teikningum fellur frístundahús, sem staðsett er rétt norðan bæjarins, nánast undir línurnar svo skilja má að eigendur þess sem og bændum í Saurbæ sé brugðið.

Eins og sjá má er örstutt á milli Saurbæjar og Systrasels sem er í rjóðrinu hægra megin á myndinni. Mynd: PF

Eins og sjá má er örstutt á milli Saurbæjar og Systrasels sem er í rjóðrinu hægra megin á myndinni. Mynd: PF

„Okkur líst skelfilega á þessa hugmynd. Þetta verðu alveg gríðarlega stórt mannvirki og í rauninni ekkert í líkingu við neitt sem við þekkjum hér í Skagafirði. Það á að leggja þetta  nálægt húsum hér á jörðinni. Þessu fylgir vegur, sem á að fylgja línunni alla leið, og ákveðið byggingabann sem gildir við línuna. Svo setur maður spurningarmerki við heilsufarsleg áhrif við að búa svo nálægt svona línu,“ segir Heiðrún. Hún, ásamt manni sínum, Pétri Erni Sveinssyni, stunda nokkuð fjölbreyttan búskap, rækta hross og holdanaut, reka tamningastöð, sinna reiðkennslu og hafa einnig verið með ferðaþjónustu frá árinu 2015, svo það er í mörg horn að líta.

Heiðrún segir að sér sýnist sem línustæðið sé áætlað innan við 350 metra frá íbúðarhúsinu og enn nær vinnuaðstöðu þeirra, útihúsum og tamningastöð hvað þá frístundahúsi í eigu föðursystra hennar, sem staðsett er skammt norðan bæjarins og kallast Systrasel. Þar er nánast um heilsárshús að ræða þar sem búið er að leggja heitt vatn, rafmagn og ljósleiðara. Samkvæmt teikningu er fjarlægðin jafnvel ekki meiri en tíu metrar en línan mun þá væntanlega fara á milli þessara húsa.

„Mér sýnist áætlað að línan komi milli húsanna, niður fyrir á og þar niður í jörð og meðfram Vindheimamelabrekkunum, einhverja 3 km. Það er auðvitað bara gott að þetta fari í jörð hluta af leiðinni en fyrst þeir ætla þessa leið og í gegnum 20 jarðir, í hjarta Skagafjarðar, þá finnst mér að þetta ætti allt að fara í jörðu.“

Systrasel er staðsett þar sem punkturinn í bláa kassanum er og Saurbær örlítið neðar í gula kassanum. Rauða línan er fyrirhuguð leið Blöndulínu 3. (Athygli er vakin á því að í blaðinu hefur kassinn um Systrasel færst til og er því rangt staðsettur.)

Systrasel er staðsett þar sem punkturinn í bláa kassanum er og Saurbær örlítið neðar í gula kassanum. Rauða línan er fyrirhuguð leið Blöndulínu 3. (Athygli er vakin á því að í blaðinu hefur kassinn um Systrasel færst til og er því rangt staðsettur.)

En þó svo að línan yrði sett í jörð á þeirri leið sem teiknuð hefur verið upp milli Saurbæjar og Systrasels eru samt ljón í veginum, segir Heiðrún þar sem heitavatnið kemur úr jörðu á því svæði. „Borholan okkar liggur hér norðan við rétt við Systrasel og heitavatnslögnin liggur svo suður frá henni og heim í bæ. Þá þarf að fara í gegn um hana sem og rafmagns- og ljósleiðara, sem er kannski minna mál, ég skil bara ekki af hverju er verið að troða þessu svona ofan í okkur“ segir hún og bendir á að fyrri tillagan hafi ekki verið jafn skelfileg.

Heiðrún vill að ekki verði farið í þessa framkvæmd fyrr en hægt sé að gera það í sátt við umhverfið og íbúa sveitarfélagsins. „Við höfum ekkert á móti því að koma á betra raforkuöryggi eða auka flutningsgetuna en maður spyr sig samt hvað er nóg,“ segir hún og bendir á þá staðreynd að þessi fyrirhugaða lína er 220 kV en til samanburðar þá er byggðalínan sem liggur nú yfir Skagafjörð 132 kV. „Væri ekki bara nóg að leggja aðra 132 kV línu og þá sem jarðstreng?“ spyr Heiðrún og útskýrir að íbúar landsbyggðarinnar noti einungis 6-8% allrar raforku á Íslandi. „og varðandi byggingu Sauðárkrókslínu 2 þá eykst afhendingaröryggið á svæðinu til mikilla muna enda verða þá tvær 66kV línur sem liggja milli Varmahlíðar og Sauðárkróks.“

Nánar er rætt við Heiðrúnu í Feyki vikunnar og einnig segir föðursystir hennar, Hrefna Þórarinsdóttir einn eigenda Systrasels, frá því hvernig sælureit fjölskyldunnar er ógnað með stóriðjulínum og tilheyrandi möstrum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir