Vilja taka þátt í skipulagsvinnu við íþrótta- og útivistarsvæði í Hvammi

Kirkjuhvammur á Hvammstanga. Mynd: wikiloc.com
Kirkjuhvammur á Hvammstanga. Mynd: wikiloc.com

Ungmennaráð Húnaþings vestra skorar á sveitastjórn að fara af stað með að skipuleggja íþrótta- og útivistarsvæðið í Hvammi en ráðið hefur áhuga á að framtíðarsýn sveitarfélagsins verði sýnileg. Einnig óskar ráðið eftir því við sveitastjórn að afsláttur verði veittur af gjöldum fyrir ungmenni frá 18 – 25 ára.

Í fundargerð frá síðasta fimmtudegi kemur fram að fulltrúar í ungmennaráði Húnaþings vestra óski eftir því að fá að taka þátt í að skipuleggja íþrótta- og útivistarsvæðið í Hvammi til að hafa áhrif á hvað fari inn á svæðið þar sem unga fólkið muni koma til með að nýta svæðið í tengslum við íþróttir og útivist, ásamt öðrum íbúum.

Einnig óskaði ungmennaráðið eftir því við sveitastjórn að afsláttur verði veittur af gjöldum fyrir ungmenni frá 18 – 25 ára, sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu, og nefndu sem dæmi íþróttamiðstöðina. Einnig hvetur ráðið önnur félagasamtök að veita afslátt á sínum gjöldum.

Fleiri fréttir