Vill koma með allan þingflokkinn til Skagafjarðar í vor

Guðjón S. Brjánsson á fundi á Kaffi Krók í síðustu viku. Mynd: PF.
Guðjón S. Brjánsson á fundi á Kaffi Krók í síðustu viku. Mynd: PF.

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi heimsótti Skagafjörð í liðinni viku og boðaði til fundar með heimamönnum líkt og tíðkast hjá þingmönnum í kjördæmaviku. Með honum í för voru þau Guðmundur Andri Thorsson og Helga Vala Helgadóttir en hún þurfti svo að bruna suður og sitja fund um kvöldið í Reykjavík. Guðjón fór víða um daginn og var ánægður með ferðina, fannst gott hljóð í Skagfirðingum og vill koma með allan þingflokkinn í vor.

„Það er alltaf upplifun að koma í Skagafjörð og fá tækifæri til að heimsækja fólk, fyrirtæki og stofnanir. Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að fá þau Helgu Völu og Guðmund Andra til að slást í för og í raun var þessi ferð dálítil opinberun fyrir þau bæði. Á svona ferðalögum erum við alltaf í kapphlaupi við tímann og náðum ekki að fara eins víða og við vildum,“ segir Guðjón sem telur að heimsóknin að Hólum hafi verið það sem vakti þau helst til umhugsunar. „Þar er unnið mjög framsækið starf sem sameinar bæði fræðilegar kröfur og hagnýtar sem hvorutveggja kallast á við samfélagið í dag og framtíðina. Þar er verið að fást við kennslu og fræði á sviði ferðamála, einn helsta vaxtarsprotann á Íslandi um þessar mundir og nátengd er svo auðvitað hestabrautin en bæði þessi svið eru einstök á Íslandi. Ekki síður er áhugaverð verkefnin sem eru á fiskeldisbrautinni, bleikjuræktin og kynbótastarfið sem þar er unnið.  Vísinda- og rannsóknastarfið hefur áunnið skólanum flott orðspor og skólinn fengið óvenju marga styrki og það segir sína sögu um gæði hans.“

Guðjón segir að ætla mætti í því ljósi að stjórnvöld litu með miklum áhuga, metnaði og hvatningu til þessarar menntastofnunar en svo virðist ekki vera. „Því virðist, því miður, ekki að heilsa og skólinn berst í bökkum og knappar fjárveitingar hamla því að hann geti vaxið og dafnað eins og samfélagið þarf á að halda.“

Ferðafélagarnir þrír fóru líka á Hofsós og hittu Valgeir og hans fólk á Vesturfarasetrinu og skoðuðu fánasmiðjuna sem er , eins og Guðjón orðar það, lítill gimsteinn í atvinnuflórunni á Íslandi. 

„Safnastarfið sem tengist Vesturförunum er náttúrlega mikil saga útaf fyrir sig og er stórmerkileg og ánægjulegt að heyra að tengslin vestur um haf viðhaldist og eflast bara að sögn Valgeirs en það er eingöngu vegna þess að þau eru ræktuð og nærð og þar veldur þrotlaus áhugi og skilningur Valgeirs sjálfsagt mestu.“

Þá var haldið vestur yfir Vötn og litið við á flugvellinum og segir Guðjón það ánægjulegt að fá það staðfest að gert hefur verið samkomulag um að nýta hann sem þjálfunar- og æfingaflugvöll fyrir flugnema sem tryggir notkun og viðhald og heldur því áfram opnu að umferð um hann með farþega verði áfram möguleiki og það finnst honum vera mikilvægt.

„Kjaramálin bar iðulega á góma,“ segir Guðjón aðspurður um þau mál sem helst brunnu á fólki. „Það er uggur í fólki og hvar sem komið var, þá er fólk agndofa yfir því óréttlæti og þeirri mismunun sem er að vaxa og við verðum að snúa af þessari braut. Samgöngumálin eru líka atriði sem allir hafa skoðanir á, hvort sem er á landi, í lofti eða á sjó. Það bíða talsverð verkefni við hafnarbætur því horft er til þess að fleiri skemmtiferðaskip hafi viðdvöl í Skagafirði og það er ekki skrýtið þar sem um eitt fallegasta svæði landsins er að ræða og fullt af sögu og menningu. Að öðru leyti finnst mér gott hljóð í fólki á svæðinu enda er mannlíf kröftugt í Skagafirði. Þetta var ánægjuleg viðdvöl en eins og ég segi, þá hefðum við viljað koma við víðar, t.d. hjá Íbúðalánasjóði, Byggðastofnun, í Fjölbrautaskólann og á Heilbrigðisstofnunina, allt mikilvægar stofnanir fyrir samfélagið sem við verðum að standa vörð um. Það bíður næstu heimsóknar og við hétum því að efna í ferð með allan þingflokkinn á þetta svæði í vor.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir