Vöggugjöf Lyfju veitt í ellefta sinn
Lyfja opnaði fyrir umsóknir um Vöggugjöf í vikunni sem er nú gefin verðandi og nýbökuðum foreldrum í ellefta sinn, þeim að kostnaðarlausu. Vöggugjöfin var fyrst veitt árið 2020 og frá þeim tíma hefur Lyfja dreift 20 þúsund gjöfum sem innihalda vörur sem koma að góðu gagni fyrstu mánuði barnsins. Heildarverðmæti allra Vöggugjafanna frá upphafi er um 235 milljón krónur.
Markmið Vöggugjafar Lyfju er einna helst að veita nýbökuðum foreldrum allt það helsta sem þarf fyrir nýfætt barnið og þannig létt undir á tímum þar sem stuðningur sem þessi kemur sér vel. Hugmyndin að verkefninu fæddist í samstarfi við Ljósmæðrafélag Íslands. Í ár hefur Una Emilsdóttir, sérnámslæknir í umhverfislæknisfræði rýnt og valið þær húðvörur sem gefnar eru og séð til þess að þær séu án skaðlegra innihaldsefna fyrir bæði barnið og umhverfið.
„Árlega fæðast um 4.300 börn hér á landi og hefur það verið markmið okkar að sem flestir nýbakaðir foreldrar fái þessa vöggugjöf sem nýtist vel þegar nýr einstaklingur bætist í fjölskylduna. Aðsóknin er alltaf mikil og klárast gjafirnar oft stuttu eftir að við opnum fyrir skráningar. Það er því greinilegt að verðandi og nýbakaðir foreldrar kunna að meta framtakið og gleðjumst við yfir því að geta orðið að liði á þessum gleðilegu tímamótum í lífi fólks,“ segir Karen Ósk Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Lyfju.
Hægt er að sækja um Vöggugjöfina á vef Lyfju og geta foreldrar óskað eftir að fá hana senda heim eða sótt hana í næstu verslun Lyfju um land allt.
/Fréttatilkynning
