Vonar að íbúar verði duglegir að mæta og taka þátt í endurskoðun aðalskipulags Svf. Skagafjarðar

Frá íbúafundi um endurskoðun aðalskipulags Svf. Skagafjarðar. Mynd: Sigfús Ólafur Guðmundsson.
Frá íbúafundi um endurskoðun aðalskipulags Svf. Skagafjarðar. Mynd: Sigfús Ólafur Guðmundsson.

Skipulags- og byggingarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur hafið vinnu við endurskoðun á gildandi Aðalskipulagi Sveitarfélagsins. Að sögn Einars Einarssonar, formanns skipulags- og byggingarnefndar, er ætlunin að verkið taki um það bil eitt ár frá því nú og að nýja skipulagið muni gilda frá 2021 til 2034. 

„Fyrstu og mikilvægustu skrefin í þessari vinnu er að leita álits hjá íbúum Sveitarfélagsins á þeirra framtíðarsýn um þróun sveitarfélagsins. Vinnan byrjaði í raun með vinnufundi sem haldinn var með nemendum 7. og 9. bekkjar í Varmahlíð, Hofsósi og á Sauðárkróki en þar gafst þeim kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Nú eru að byrja fundir með íbúum þar sem þeim er gefinn kostur á að koma á framfæri sínum skoðunum og framtíðarsýn á hvað þurfi að gera svo hér megi áfram dafna blómlegt mannlíf og atvinnulíf með öllu sem þessu fylgir.“ segir Einar.

Á fyrsta auglýsta íbúafundinum sem haldinn var í síðustu viku voru þrjár framsögur og síðan unnu fundargestir í hópum. Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri var með framsögu um íbúaþróun í sveitarfélaginu, Sigurður Árnason og Eva Pandóra Baldursdóttir frá Byggðastofnun með framsögu um atvinnumál og Guðrún Lárusdóttir, bóndi og formaður Búnaðarsambands Skagfirðinga með framsögu um Landbúnað í Skagafirði. Einar segir að mjög áhugaverðar vangaveltur um stöðu og þróun næstu árin hafi komið fram í öllum erindunum en síðan unnu fundargestir í hópum með þessi þrjú megin verkefni á fundinum þar sem þeir settu sínar hugmyndir á blað. Allar upplýsingar sem komu fram á fundinum verða gerðar aðgengilegar á heimasíðu Sveitarfélagsins.

„Í þeirri vinnu sem framundan er verður lögð rík áhersla á að miðla sem mestum upplýsingum af gangi mála í gegnum heimasíðu Sveitarfélagsins. Þar verður á næstu dögum meðal annars opnað fyrir sérstakan aðgang til að skrá inn hugmyndir eða ábendingar um verkefni sem fólki finnst að taka eigi tillit til við skipulagsgerðina.“

Einar segir að þeir fundir sem búir séu hafi verið skemmtilegir, bæði unga- og fullorðna fólkið hafi verið áhugasamt um að leggja gott til málanna til að áfram geti þróist gott samfélag í Skagafirði.

Framundan eru íbúafundir í Varmahlíð og á Hofsósi en gert er ráð fyrir að minnsta kosti sex íbúafundum meðan á vinnunni stendur ásamt nokkrum fundum með hagaðilum um einstök málefni eins og t.d. reiðleiðum um héraðið. „Það er því von okkar sem komum að þessum málum fyrir hönd sveitarfélagsins að íbúar verði áfram duglegir að mæta og taka þátt,“ sagði Einar að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir