Tindastólsmenn sterkari á Akureyri

Hansel Atencia tekur skotið í fyrri leik Tindastóls og Þórs í vetur. Perkovic reynir að trufla hann. Pétur fylgist með. MYND: HJALTI ÁRNA
Hansel Atencia tekur skotið í fyrri leik Tindastóls og Þórs í vetur. Perkovic reynir að trufla hann. Pétur fylgist með. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastólsmenn brunuðu norður á Akureyri í gær og léku við sprækt lið Þórsara í 16. umferð Dominos-deildarinnar. Heimamenn voru vel studdir og stemningin mögnuð í Höllinni en ríflega 500 manns skemmtu sér vel yfir fjörugum leik liðanna. Það væri kannski synd að segja að leikurinn hafi verið jafn en lið Þórs var þó aldrei nema góðum spretti frá því að stríða Stólunum. Strákarnir okkar stóðu í lappirnar á lokakaflanum og fleyttu heim góðum stiga sigri og fóru kátir heim á Krók með tvö stig í pokanum. Lokatölur 86-96.

Þórsarar voru brattir fyrir leikinn í kjölfarið á góðum sigri gegn KR í upphafi vikunnar. Það átti eftir að koma í ljós hvort sá leikur sæti í löppunum og heimamönnum en bæði lið brunuðu af stað í byrjun leiks og jafnt var á öllum tölum þar til Sinisa Bilic skellti í þrist en hann skoraði grimmt í fyrri hálfleik. Jafnræði var með liðunum út leikhlutann en Stólarnir einu stigi yfir að honum loknum, 23-24. Þórsarar urðu fyrir áfalli rétt fyrir lok leikhlutans þegar Mantras Virbalas fékk högg á höfuðið og sá tvöfalt eftir það. Gestirnir fóru vel af stað í öðrum leikhluta og þristur frá Geiger kom Stólunum átta stigum yfir, 23-31, en Þórsarar gáfust að sjálfsögðu ekki upp, enda Lárus þjálfari þeirra búinn að lofa blóði, svita og tárum. Jamal Palmer jafnaði leikinn, 37-37, en körfur frá Bilic og Viðari bjuggu til forskot á ný og staðan í hálfleik 42-50 fyrir Tindastól.

Þórsarar bitu frá sér í upphafi síðari hálfleik og Terrence Motley minnkaði muninn í fjögur stig, 49-53, en karfa frá Geiger og tvö víti frá Perkovic löguðu stöðuna á ný fyrir Stólana. Þá var komið að Pétri Birgis að dempa stemninguna í Höllinni en kappinn gerði átta stig í röð, þar af tvo þrista, og Stólarnir skyndilega komnir með 16 stiga forystu, 49-65. Lalli tók leikhlé til að stöðva lekann og heimamenn svöruðu kallinu með 9-0 kafla en þá gerði Geiger tvær 3ja stiga körfur fyrir Stólana og staðan 60-71 fyrir lokafjórðunginn. Víti frá Júlíusi Orra og troðsla frá Motley gáfu Þórsurum von í upphafi fjórða leikhluta en Stólarnir svöruðu með körfum frá Helga, Axel, Brodnik og Pétri og munurinn orðinn 15 stig og ljóst að Þórsarar áttu á brattann að sækja. Axel bætti við körfu en Motley svaraði með þristi og staðan 69-81 þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka. Þá kom tveggja mínútna kafli þar sem liðin náðu ekki að skora.

Lið Tindastóls var ellefu stigum yfir, 74-85, þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Vel hvattir af stuðningsmönnum sínum náðu Þórsarar frábærum 45 sekúndum þar sem Hansel Atencia stal boltanum í tvígang og kaflinn skilaði heimamönnum sjö stigum. Allt í einu munaði aðeins fjórum stigum á liðunum og rúmlega ein og hálf mínúta eftir og það getur verið langur tími í körfuboltaleik. Baldur tók leikhlé til að skipuleggja leik sinna manna og það skilaði sér í þristi frá Geiger sem reyndist í raun náðarhöggið. 

Sem fyrr segir var leikurinn hin besta skemmtun, mikil barátta og leikmenn sýndu ágæt tilþrif. Stólarnir einbeittu sér að því að passa að Hansel fengi ekki að leika lausum hala í liði Þórs og því steig Viðar lengstum varnardansinn við hann – nánast vangadans á hröðu tempói – og skilaði verkinu vel því Hansel gerði aðeins tíu stig í leiknum. Sinisa Bilic gerði 27 stig fyrir Stólana en Jaka Brodnik var með flesta framlagspunkta, 22, en hann gerði 10 stig og tók 18 fráköst, þar af sjö sóknarfráköst. Geiger skilaði 22 stigum, Pétur 16, Axel og Perkovic gerðu átta stig hvor, Viðar þrjú og Helgi tvö. Simmons sat á bekknum en hann stríðir við meiðsli í læri og var hvíldur. Í liði Þórs var Motley með 26 stig, Pablo Hernandez 22 stig og 12 fráköst og Jamal Palmer var með 18 stig.

Nú á sunnudaginn kemur lið KR í heimsókn í Síkið en Vesturbæingar léku lausum hala gegn liði ÍR í gærkvöldi og gerðu 120 stig. Liðin hittu glæfralega vel utan 3ja stiga línunnar en heimamenn í KR þó talsvert betur. Unnendur góðs varnarleiks fengu aftur á móti ekki mikið fyrir peninginn. Lið Tindastóls og KR eru með 20 stig, líkt og lið Hauka, og leikurinn því mjög mikilvægur í baráttunni um heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni. Það er því bráðnauðsynlegt að fjölmenna í Síkið og styðja lið Tindastóls til sigurs. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir