Grunnskóli Húnaþings vestra sigursæll í Skólahreysti

Frá verðlaunaafhendingu í gær. Lið Lágafellsskóla, Grunnskóla Húnaþings vestra og Akurskóla. Skjáskot af vef Ríkissjónvarpsins
Frá verðlaunaafhendingu í gær. Lið Lágafellsskóla, Grunnskóla Húnaþings vestra og Akurskóla. Skjáskot af vef Ríkissjónvarpsins

Keppni í Skólahreysti hófst á ný í gær þegar lið í tveimur riðlum háðu keppni í Laugardaldhöllinni. Keppnin er með nokkuð breyttu sniði í ár vegna áhrifa af COVID-19 en aðeins hafði tekist að ljúka keppni í tveimur riðlum, Norðurlandsriðli og Akureyrarriðli, áður en samkomubann skall á. Þeim skólum sem eftir áttu að keppa var raðað í fjóra riðla og munu síðari tveir riðlarnir keppa í dag.

Krakkarnir í Grunnskóla Húnaþings vestra gerðu sér lítið fyrir og báru sigur úr býtum í sínum riðli með 56 stig. Í öðru sæti varð Akurskóli með 53 stig og Lágafellsskóli hreppti þriðja sætið með 42 stig.

Lið Grunnskóla Húnaþings vestra skipa þau Ásdís Aþena Magnúsdóttir sem keppti í armbeygjum og hreystigreip, Guðmundur Grétar Magnússon sem keppti í upphífingum og dýfum og í hraðaþrautinni kepptu þau Rakel Gígja Ragnarsdóttir og Hilmir Rafn Mikalesson. Þetta mun vera þriðja árið í röð sem skóllinn krækir í fyrsta sætið í sínum riðli.

Úrslitakeppni Skólahreysti fer fram í Laugardalshöll á morgun, laugardaginn 30.maí kl.19.40,  og á Norðvesturland þar tvo fulltrúa, Grunnskóla Húnaþings vestra og Varmahlíðarskóla sem fór með sigur af hólmi í Norðurlandsriðli í mars. Keppnin verður sýnd í í beinni útseningu á RÚV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir