Haukar og Álftanes koma í Síkið í Geysisbikarnum

Í gær var dregið í 16 liða úrslit Geysisbikars karla og kvenna í körfubolta. Um var að ræða átta leiki hjá körlunum en fjóra hjá dömunum en fjögur lið sitja hjá og komast því beint í átta liða úrslitin í kvennaflokki. Karlalið Tindastóls fær heimaleik gegn spræku 1. deildar liði Álftaness en kvennaliðið mætir Dominos-deildar liði Hauka. 

Í báðum tilfellum er um heimaleiki að ræða og er áætlað að leikirnir fari fram á tímabilinu 5.-7. desember. Nokkrir stórleikir verða í 16 liða úrslitum karla eins og t.d. leikir Grindavíkur og KR og væntanlega Njarðvíkur og Keflavíkur en taplaust lið Keflavíkur á enn eftir að mæta Þór Ak b. á Akureyri í 32 liða úrslitunum.

Lið Álftaness hefur leikið fjóra leiki í 1. deild karla það sem af er tímabili, unnið tvo og tapað tveimur. Þjálfari þeirra er Hrafn Kristjánsson sem þjálfaði m.a. Stjörnuna í nokkur ár. Það má reikna með brattari brekku hjá stelpunum en lið Hauka hefur átt góðu gengi að fagna í efstu deild kvennaboltans, eru með vel skipað lið og hafa unnið fjóra af fimm leikjum sínum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir