Hvalreki á fjörur Tindastóls

Ljósmynd: davidmar.net Grafík: Halldór Halldórsson
Ljósmynd: davidmar.net Grafík: Halldór Halldórsson

Gengið hefur verið frá samkomulagi um að enski körfuknattleiksmaðurinn Callum Lawson, sem gert hefur garðinn frægan hérlendis með Val og þar áður Þór Þorlákshöfn, leiki með Tindastóli á komandi keppnistímabili íslenska körfuboltans.

Hann hefur allar götur frá komu sinni inn til landsins verið yfirburðamaður í liðum sínum og vann meðal annars með þeim Íslandsmeistaratitla árin 2021 og 2022 og að síðan bikarmeistaratitil sl. vetur. Callum er þannig fæddur sigurvegari og er staðráðinn í að halda afram á þeirri braut með Tindastóli næsta vetur.

Hann segist hlakka til að vinna bæði vinna bæði með Pavel og strákunum í liðinu að því verkefni að verja þann langþráða Íslandsmeistaratitil sem náðist í höfn sl. vor og á sama tíma njóta þess að vera með en ekki á móti öllu fjörinu á Sauðárkróki.

„Ég hef oft spilað á móti Tindastóli á síðustu árum og alltaf dáðst að þessari miklu stemningu og stórkostlegu umgjörð sem er í kringum liðið. Það hefur verið mikil áskorun að mæta í Síkið og kljást við bæði frábæra leikmenn og einstakt andrúmsloft. Úrslitarimman á milli okkar í Val og Tindastóls sl. vor er upplifun sem ég mun aldrei gleyma," segir Callum Lawson.

Þjálfari Tindastóls, Pavel Ermolinskij segir Callum vafalaust eiga eftir að verða mikill máttarstólpi í liði Tindastóls á komandi vetri. Það dýrmætasta af öllu við Callum að mati Pavels sé hvað hann er mikill leiðtogi jafnt innan vallar sem utan og því hafi verið hann lengi efstur á óskalistanum.

,,Hann er fjölhæfur leikmaður sem hefur liðið sitt ávallt í fyrirrúmi. Skorar sjálfur, vinnur fráköst, sinnir öflugri varnarvinnu um allan völl en matar líka félaga sína eldsnöggt á sóknarfærum með ótrúlegri útsjónarsemi," segir Pavel,.

 „Þetta er mikill hvalreki á okkar fjörur og enn ein staðfesting þess að Tindastóll er orðinn valkostur fyrir körfuknattleiksmenn í allra hæsta gæðaflokki hér á Íslandi. Callum hittir hér gamla félaga og ég er sannfærður um að hann muni styrkja liðsheildina og falla vel inn í þann sterka hóp sem nú býr sig undir átökin á komandi vetri,“ segir Dagur Baldvinsson, formaður Körfuknattleiksdeildar Tindastóls.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir