Jonathan Olaleye og Jack Clancy gengnir til liðs við Stólana

Guðbrandur Guðbrandsson og Brynjar Rafnsson eldhressir á leik með Stólunum um síðustu helgi. Vonandi fá þessir eðal stuðningsmenn ástæðu til að kætast í lok sumars. MYND: ÓAB
Guðbrandur Guðbrandsson og Brynjar Rafnsson eldhressir á leik með Stólunum um síðustu helgi. Vonandi fá þessir eðal stuðningsmenn ástæðu til að kætast í lok sumars. MYND: ÓAB

Nú styttist í að leikmannaglugginn lokist í fótboltanum og hafa Tindastólsmenn verið á fullri ferð við að tryggja sér leikmenn eftir að hafa misst þrjá góða. Að sögn Stefáns Arnars Ómarssonar, þjálfara Tindastóls, þá eru tveir erlendir leikmenn gengnir til liðs við Stólana og þar að auki hafa þrír fyrrum Tindastólsmenn skráð félagaskipti og reiknað er með að einn íslenskur leikmaður bætist í hópinn fyrir júlílok.

„Jonathan Olaleye er kantmaður frá Írlandi sem var áður á mála hjá stórliðinu Stevenege FC og Tonbridge Angels,“ segir Stefán Arnar léttur. „Jack Clancy er miðjumaður, einnig frá Írlandi, en hann kemur úr bandaríska háskólaboltanum.“

Eins og áður sagði eru þrír fyrrum leikmenn búnir að skrá félagaskipti en það eru Arnór Daði Gunnarsson úr HK, Aron Örn Sigurðsson (Sigga Donna) úr Hamri og Árni Einar Adolfsson úr Hvöt. „Arnór Daði er að hjálpa okkur núna í tveimur leikjum áður en hann fer erlendis í skóla. Árni Einar er búsettur á Króknum og vildi komast aftur í Tindastólstreyjuna og Aron Örn skipti fyrir síðasta leik, kannski aðallega til að hjálpa okkur vegna manneklu,“ segir Stefán Arnar en Stólarnir voru ansi fáliðaðir í leiknum gegn Njarðvík á föstudagskvöldið.

Hann bætir við að von sé á að minnsta kosti einum íslenskum félagaskiptum í viðbót fyrir lok gluggans á mánudaginn. 

Fleiri fréttir