Lagfæringar á gervigrasvellinum komnar á fullt

Gervigrasinu rúllað upp og gúmmílagið síðan fjarlægt. MYNDIR: ERLINGUR B JÓHANNESSON
Gervigrasinu rúllað upp og gúmmílagið síðan fjarlægt. MYNDIR: ERLINGUR B JÓHANNESSON

Það horfir til betri vegar á gervigrasvellinum á Króknum en hann varð fyrir skemmdum fyrir um fjórum vikum síðan í all harkalegum vorleysingum. Viðgerðir hófust í gærmorgun en í frétt á síðu Skagafjarðar segir að á meðan á viðgerðum stendur verður hluta vallarins lokað en hægt verður að æfa á þeim hluta sem ekki varð fyrir skemmdum.

Vonir standa til þess að völlurinn verði klár í slaginn um næstu mánaðamót en framkvæmdirnar annast Metatron í félagi við heimaaðila. Mikilvægt er að foreldar og forráðamenn brýni fyrir börnum sínum að fara varlega í kringum framkvæmdirnar.

Skemmdir urðu á um 1.500 fermetra svæði á vellinum, en völlurinn sjálfur er rúmlega 8.000 fermetrar. Byggðaráð Skagafjarðar samþykkti á fundi sínum á miðvikudaginn að fara í viðgerðir á vellinum að fjárhæð 11 milljónir króna og í kjölfarið fer fram endurnýjun á 550 fermetrum af gervigrasi á vellinum í samræmi við fjárhagsáætlun 2024 .

Einhverjir furða sig kannski á því hvers vegna ekki var hægt að gera við völlinn í hvelli en hlutirnir eru nú sjaldnast svo einfaldir að það sé hægt. Þeir sem flytja inn efni á svona velli liggja nú vanalega ekki með það á lager, meta þarf skemmdirnar og áætla hversu stóran hluta vallarins þarf að laga, þeir sem kunnáttuna hafa til framkvæmda eru ekki alltaf á lausu því fleiri velli þarf að vinna við og svo framvegis.

Erlingur B. Jóhannesson fylgdist með framkvæmdum í morgun og gaf Feyki leyfi til að birta þessar myndir sem hér fylgja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir