María Anna og Cosmin Blagoi semja um að þjálfa hjá Tindastóli

María Anna og Cosmin. MYNDIR AF NETINU
María Anna og Cosmin. MYNDIR AF NETINU

Undirskriftapenninn er í fullri notkun hjá körfuknattleiksdeild Tindastóls og vissara að Dagur Baldvins og félagar kanni blekstöðuna fyrr en síðar. Ekki var nóg með að í gær hafi verið tilkynnt um að fjölmeistarinn Callum Lawson hefði samið um að spila með meistaraflokki karla því einnig var tilkynnt að unglingaráð hefði samið við Maríu Önnu Kemp Guðmundsdóttur og Cosmin Blagoi um að þjálfa yngri flokka félagsins. Blagoi mun einnig aðstoða Helga Margeirs með meistaraflokk kvenna og akademíu FNV.

María Anna skrifaði undir samning við unglingaráðið um að þjálfa tímabilið 2023 -24 og út sumarið 2024. Hún er með BA. í uppeldis- og menntunarfræðum, fyrrverandi leikmaður hjá meistaraflokkum Grindavíkur og Keflavíkurauk þess sem hún spilaði í yngri landsliðum Íslands. María Anna mun sjá um þjálfun hjá 1.-4. bekk drengja og stúlkna og 7.- 9.fl. stúlkna. María Anna hóf störf hjá unglingaráðinu í vor þegar hún tók við þjálfun stúlkna í 7.-8.fl auk þess hefur hún verið með yngri hópa í SumarTím.

Cosmin Blagoi, FIBA þjálfari frá Rúmeníu, hefur einnig verið ráðinn þjálfari hjá unglingaráði kkd. Tindastóls tímabilið 2023-2024. Blagoi mun þjálfa 7.-11. flokk drengja og ungmennaflokk karla. Hann mun einnig aðstoða Helga Frey Margeirsson með meistaraflokk kvenna og akademíu FNV.

Helgi segir að Cosmin hafi þjálfað síðast í norsku úrvalsdeildinni (KK) „Þar á undan var hann í Austurríki og svo hefur hann verið að þjálfa mikið í körfuboltabúðum á Norðurlöndunum. Hann var einnig að þjálfa yngri landslið Rúmeníu auk þess sem hann hefur verið í þjálfarateymi rúmenska landsliðsins.“ Helgi er ekki tilbúinn til að fullyrða að Cosmin sé hokinn af reynslu þegar Feykir spyr að því en hann hafi góða reynslu. „Það fer mjög gott orð af honum og hefur hann fengið góð meðmæli úr mörgum áttum. Hann er mjög vel menntaður þjálfari,“ bætir Helgi við.

Fram kemur í frétt á vef Tindastóls að æfingar eru að hefjast hjá elstu hópunum og munu þær verða kynntar í lok vikunnar. Æfingar yngri hópa hefjast þegar skólarnir fara í gang.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir