Sævar verður fánaberi í Sochi
Sævar Birgisson, skíðagöngumaður frá Sauðárkróki, verður fánaberi Íslands á setningarhátíð XXII Vetrarólympíuleikana sem fram fer annað kvöld, 7. febrúar.
Sævar, sem er 25 ára gamall, bjó lengst af á Sauðárkróki ásamt foreldrum sínum Þorgerði Sævarsdóttur og Birgi Gunnarssyni. Þorgerður er dóttir Guðlaugar Gunnarsdóttur, sem margir þekkja sem Laugu á Ábæ, og Sævars Einnarssonar, en Birgir er frá Siglufirði.
Í viðtali við Fréttablaðið fyrr í vetur segir Sævar frá meiðslum sem hann hefur þurft að glíma við, m.a. hrygggigt, en hann hefur náð ótrúlegum árangri þrátt fyrir þau og setur nú markið á að vera meðal 50 efstu á leikunum.
Tuttugu ár eru liðin síðan Ísland átti síðast keppanda í skíðagöngu á Vetrarólympíuleikum en í Lillehammer 1994 kepptu þeir Daníel Jakobsson og Rögnvaldur Ingþórsson. Enn lengra er síðan fánaberi íslenska hópsins var skíðagöngumaður en það var Einar Ólafsson sem keppti á leikunum 1988 í Calgary.