Skellur í Eyjum og Stólarnir mjólkurlausir út árið

7-0 voru lokatölurnar á Hásteinsvelli í Eyjum. SKJÁMYND
7-0 voru lokatölurnar á Hásteinsvelli í Eyjum. SKJÁMYND

Þriðja umferðin í Mjólkurbikar karla hófst í kvöld með leik ÍBV og Tindastóls í Eyjum. Eylingar voru talsvert sterkari í leiknum, enda eitt besta lið Lengjudeildarinnar, en það var þó sérstakega síðasti hálftími leiksins sem reyndist 3. deildar liði Stólanna erfiður og flóðgáttir opnuðust. Frammistaða gestanna var með ágætum í fyrri hálfleik en heimamenn leiddu þó 1-0 að honum loknum. Þeir bættu við sex mörkum í þeim síðari og lokatölur því 7-0.

Jón Ingason kom ÍBV yfir eftir fimm mínútna leik með marki eftir hornspyrnu. Þrátt fyrir að fá nokkur góð færi tókst heimamönnum ekki að bæta við mörkum fyrir hlé en Tindastólsmenn áttu nokkra ágæta spretti. Jón bætti við öðru marki eftir hornspyrnu á 51. mínútu og Gary Martin gerði fyrsta mark sitt í leiknum á 68. mínútu – sömuleiðis eftir hornspyrnu. 

Þá var nú mesti móðurinn af okkar mönnum en Eylingar pressuðu þétt undan strembnum vindi og Stólunum gekk afleitlega að færa sig fram völlinn. Heimamenn unnu boltann hvað eftir annað á hættulegum svæðum og Stólarnir áttu engin svör. Ásgeir Elíasson gerði fjórða markið á 71. mínútu, Frans Sigurðsson bætti því fimmta við á 82. mínútu og Gary Martin gerði tvö í lokin, á 87, og 90, mínútu, og fullkomnaði þar með þrennuna.

Það er því ljóst að lið Tindastóls er úr leik í Mjólkurbikarnum þetta sumarið og í raun ágætur árangur að komast alla leið í 3. umferð. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir