Stuðningur verður mikilvægur í dag – allir á völlinn!

Í dag verða spilaðir tveir ansi hreint mikilvægir knattspyrnuleikir á Norðurlandi vestra. Á Sauðárkróki mætast lið Tindastóls og ÍBV í leik þar sem sæti í Bestu deild kvenna er undir en liðið sem tapar mun að öllum líkindum falla nema lið Selfoss komi á óvart í Keflavík. Á Blönduósi ætla síðan leikmenn Kormáks Hvatar að komast í sögubækurnar og tryggja sér sæti í 2. deild í fyrsta skipti. Þá vantar eitt stig í leik gegn liði Augnabliks en munu eflaust leika til sigurs. Því miður hefjast báðir leikirnir kl. 14:00 þannig að fólk nær ekki að styðja bæði liðin en það verður frítt á völlinn bæði á Króknum og á Blönduósi.

Í fyrradag birtist á Feyki.is hvatningarpistill frá Aðdáendasíðu Kormáks Hvatar þar sem stuðningsmenn og allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að mæta á Blönduósvöll.

Feykir spurði síðan fyrirliða Stólastúlkna, Bryndísi Rut Haraldsdóttur frá Brautarholti, um leikinn gegn ÍBV. „Leikurinn leggst mjög vel í mig, þessi síðasta umferð býður upp á mjög mikla spennu og er þannig að þrjú lið eru að spila til úrslita til að halda sæti í efstu deild! Ég vona innilega að ALLIR komi á leikinn á morgun til að styðja við okkur því það er okkur svo rosalega mikilvægt! Sýnum samheldni sem við erum svo stolt af hér í samfélaginu okkar og verið okkar 12 maður!“

Bryndís Rut minni á að það væri mjög gott að fá sem flesta til að láta gott af sér leiða í styrktarsöfnun fyrir fjölskyldu leikmanns Einherja á Vopnafirði, Violetu Mitul, sem lést að slysförum í síðustu viku.

Einnig er hægt að leggja beint inn á söfnunarreikning Einherja:
Kennitala 610678-0259, reikningur 0178 - 05 - 000594

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir