Takast á við verkefnið með jákvæðum huga

Þjálfarar Stólastúlkna, Guðni Þór og Óskar Smári. MYND: ÓAB
Þjálfarar Stólastúlkna, Guðni Þór og Óskar Smári. MYND: ÓAB

Á morgun áttu Stólastúlkur að spila síðasta leik sinn í Lengjubikarnum gegn góðu Fylkisliði. Að sjálfsögðu verður leikurinn ekki spilaður enda allt íþróttastarf stopp vegna fjórðu Covid-bylgjunnar sem slegið hefur á vorbrag og væntingar landsmanna.

Feykir tók púlsinn á Guðna Þór Einarssyni, öðrum þjálfara Tindastóls, og grennslaðist fyrir um áhrifin sem ný og fersk Covid-pása hefði á undirbúning liðsins fyrir átök sumarsins en þó var byrjað á að forvitnast um leikmannamál.

Er komið í ljós hvaða stúlkur verða fengnar að láni til að styrkja leikmannahópinn fyrir sumarið? „Nei, það er ekki komin niðurstaða í þau mál. Liðin vilja halda þétt í sína leikmannahópa fram yfir Lengjubikarinn og skoða svo þessi mál þegar það mót klárast. Það er eins með okkar stelpur. Við höfum spilað á mörgum leikmönnum og stelpurnar okkar hafa allar fengið fullt af mínútum til að sanna sig á móti þessum sterku liðum og þær hafa staðið sig vel. Við teljum okkur þurfa leikmenn sem passa inn í hópinn okkar, réttu karakterana sem eru tilbúnir að berjast fyrir sæti í liðinu. Við þurfum að hafa breiðan hóp því spilað er þétt í byrjun tímabils.“

Hvað hefur fjórða bylgjan í för með sér fyrir liðið - eru æfingar stopp og allt í uppnámi? „Eins og er þá er smá óvissa en alls ekkert uppnám. Við ætlum alls ekki að svekkja okkur yfir hlutum sem við getum ekki stjórnað, við látum þessa bylgju ekki fara að slá okkur út af laginu. Fyrirmælin ættu að liggja fyrir í dag hvort við getum æft í smærri hópum án snertinga og sameiginlegs búnaðar eða þá hvort algjört æfingabann verði. Við munum bara aðlaga okkur að aðstæðum eftir því hvor leiðin verður farin. Við horfum bara á þetta sem verkefni til að takast á við og það verður gert með jákvæðum huga því það styttist með hverjum deginum í að við hlaupum inn á völlinn í Pepsi Max deildinni í fyrsta sinn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir