Þá er það bara gamla góða áfram gakk!

Tindastóll og Stjarnan mættust í frábærum fyrri hálfleik í Laugardalshöllinni í gær í undanúrslitum Geysis-bikarsins. Stjarnan var tveimur stigum yfir í hálfleik en það væri synd að segja að liðin hafi mæst í síðari hálfleik því Garðbæingar stigu Sport-Benzinn í botn og skildu Tindastólsrútuna eftir í rykinu. Stjarnan sigraði að lokum 70-98 og þó tapið hafi verið súrt og sárt að vera einhent svona úr Höllinni þá var fátt annað í stöðunni að leik loknum en að grípa til gamla frasans: Áfram gakk!

Stólana vantaði ekki stuðninginn frekar en fyrri daginn og góð stemning á pöllunum. Austurblokkin okkar fékk fljúgandi start og Bilic, Brodnik og Perkovic virtust í stuði. Stólarnir voru 9-4 yfir eftir rétt rúmar tvær mínútur en þá hertu Garðbæingar varnarleikinn og Stólabaninn Nikolas Tomsick fann fjölina allt of snemma. Stjarnan snéri þá dæminu við og komust yfir 13-18 en Simmons minnkaði muninn með því að setja niður eitt víti og staðan 14-18 að loknum fyrsta leikhluta. Að mati spekinga þurfti lið Tindastóls að halda hraðanum í leiknum niðri til að eiga möguleika gegn Stjörnunni en það var nógur hraði og hasar í öðrum leikhluta og lið Tindastóls gaf ekkert eftir. Liðin skiptust nú á um að taka stutt áhlaup og leikurinn hin besta skemmtun. Axel Kára setti niður tvo þrista í röð og jafnaði leikinn 24-24 en þá gerðu Stjörnumenn níu stig í röð. Stólarnir svöruðu að bragði með þristi frá Geiger og sex stigum frá Bilic og allt jafnt að nýju. Garðbæingar voru skrefinu á undan næstu mínútur en Bilic jafnaði með þristi, 41-41, og Jaka Brodnik kom Stólunum yfir í síðasta skiptið í leiknum, 43-42, þegar 20 sekúndur voru til leikhlés. Ægir Þór setti þá í túrbó-gírinn og spólaði í gegnum vörn Stólanna, setti boltann í körfuna og fékk víti að auki. Staðan í hálfleik 43-45.

Perkovic jafnaði leikinn í byrjun síðari hálfleiks en þá komu sjö stig frá Stjörnunni. Það var skellur fyrir lið Tindastóls að Viðar var í villuvandræðum en vandræði Garðbæinga virtust þó jafnvel verri því Urald King fékk sína fjórðu villu snemma í þriðja leikhluta í stöðunni 48-52. Líkt og í leik liðanna í Garðabæ nú eftir áramót þá efldust Stjörnumenn þegar King var kældur. Kyle Johnson og Tomsick gerðu sjö stig í röð fyrir Stjörnuna sem náðu því ellefu stiga forystu og nú var eins og Tindastólsrútan væri föst í fyrsta gír og svo byrjaði hún bara að spóla og sama hverjir voru sendir út að ýta – ekkert gerðist. Smám saman rann mesti móðurinn af okkar mönnum. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 60-73 og það var Stjarnan sem gerði fyrstu sjö stig fjórða leikhluta, staðan 60-80. Nú voru skrefin í vörn Stólanna þung og Garðbæringar þutu í gegnum hana að vild, ef skotin klikkuðu þá hirtu þeir bara sóknarfrákast og settu næsta skot niður. Á meðan var allt erfitt í sókn Stólanna, Stjörnumenn á tánum í vörninni og lítið um opin færi og ef þau gáfust geiguðu skotin oftar en ekki. 28 stiga rassskellur í Höllinni því bitur staðreynd.

Bikarhelgin fyrir tveimur árum, þegar Stólarnir urðu Maltbikarmeistarar, var frábær og sennilega það allra besta sem lið Tindastóls hefur sýnt í gegnum árin. Þá voru lið Hauka og KR lögð í parket með krafti, áræðni, liðsheild og leikgleði. Sú blanda var ekki til staðar í gær – í það minnsta ekki í síðari hálfleik. Allt of fáir leikmenn – ef einhverjir – stóðu í lappirnar þegar mest á reyndi. Að sjálfsögðu vitum við að þeir geta miklu betur. Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, sagði að leikurinn hefði verið stál í stál, síðan náðu Stjörnumenn að búa til gott forskot í þriðja leikhluta sem leiddi til þess að Stólarnir þurftu að breyta leik sínum og það bara gekk ekki. 

Jaka Brodnik var stigahæstur í liði Tindastóls með 16 stig en Perkovic var með 19 framlagspunkta; gerði 12 stig og tók tíu fráköst. Geiger var með 17 í framlag en hann gerði 10 stig og átti átta stoðsendingar. Bilic var með 10 stig en skoraði ekkert í síðari hálfleik frekar en Simmons sem endaði með 5 stig. Pétur skilaði sjö stigum en hann komst aldrei í takt við leikinn og munar um minna. Tomsick og Johnson voru stórgóðir í liði Stjörnunnar og þá áttu Tómas Hilmars og Hlynur Bærings frábæran leik báðir tveir. Ægir Þór skoraði ekki mikið en hann átti 15 stoðsendingar. Urald náði ekki að spila 15 mínútur áður en hann kláraði villukvótann en það kom ekki að sök – eiginlega þvert á móti.

En svona er lífið og þessi úrslit hafa auðvitað ekki komið neinum á óvart sem las völvuspá Feykis í 48. tölublaði 2019. Næsti leikur Tindastóls er 1. mars en þá koma Fjölnis-menn í heimsókn. Vonandi verða strákarnir þá búnir að hrista af sér vonbrigðin og þorrann. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir