„Þurfum að koma klárir í hvern leik“

„Nei, nei, ekkert að hugsa um að hætta, það þýðir ekkert meðan líkaminn leyfir þá er allt í lagi að halda aðeins áfram,“ segir Helgi Rafn Viggósson, fyrirliði Tindastóls í körfunni, en hann skrifaði undir til tveggja ára við deildina í gær eins og Feykir sagði frá í gær. „Þetta er bara frábært að gera samning við svo marga í einu og það að Jaka skuli gera samning til tveggja ára. Það er þá kominn góður kjarni og við byggjum á þessu og höfum bara gaman. Þetta skiptir máli.“

Það er álit margra sem fylgst hafa með að Helgi Rafn hafi leikið afburða vel í vetur og jafnvel eitt af hans bestu tímabilum lengi. Skyldi hann vera sammála því?
„Já, ég finn fyrir því að þetta er búið að vera gott tímabil en það er bara hálfnað og við þurfum að spýta í lófana og ná vel saman sem lið,“ segir hann og bætir við eftir spurningu blaðamanns sem spyr hvort einhver álög séu á liðinu eftir áramót þegar það virðist eiga erfitt með að vinna leiki. „Við þurfum að koma klárir í hvern leik og það skiptir ekki máli við hverja er verið að spila. Ef þú gerir það eru menn í góðum málum. Við þurfum bara að gera það eftir áramót og við hjálpumst að við að vera á sömu blaðsíðunni.“

Framundan er erfiður leikur gegn KR og svo styttist í bikarleik. Ætli sé ekki kominn bikarleiksspenningur í kappann?
„Það er bara KR á sunnudag og við setjumst yfir það á morgun [í dag] og við tæklum það hvernig við ætlum að stoppa þá. Ég er nú ekkert farinn að hugsa út í bikarleikinn ennþá. Við klárum þessa leiki fram að bikarhelgi og við klárum þá bara og svo sjáum við bara hvernig þetta þróast allt saman.“

Helgi hefur reynslu af því að leika til úrslita í Höllinni og segir stuðning áhorfenda skipta gríðarlega miklu máli.
„Já. Það skiptir gríðarlegu máli að hafa góðan stuðning eins og hefur verið í gegnum tíðina. Það hefur alltaf verið mjög góður stuðningur hér á Króknum sem og á útileikjum. Það er alltaf eins og við séum á á heimavelli. En við megum samt ekki gleyma því að mæta í húsið og styðja og það er mjög mikilvægt að hafa góða stuðningsmenn og ég hvet alla til að mæta á sunnudaginn og styðja okkur á móti KR og öllum leikjum sem eftir eru hvort sem maður er í Reykjavík eða hér á Krók. Maður grínast oft með það að liðin í Reykjavík séu gríðarlega heppin þegar við spilum á móti þeim því þá kemur vel inn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir