Til stuðnings konum sem verða fyrir kynferðislegum árásum og misnotkun eða áreitni

Marta og Beatriz, leikmenn Tindastóls. MYND: ÓAB
Marta og Beatriz, leikmenn Tindastóls. MYND: ÓAB

„Þetta merki er krafa um kvenréttindi, sett fram í kjölfar þess sem gerðist á úrslitaleik Heimsmeistaramóts kvenna. Leikmaður spænska kvennalandsliðsins sem varð heimsmeistari, Jennifer Hermoso, varð fyrir líkamlegri áreitni af hendi forseta spænska knattspyrnusambandsins,“ tjáði Marta Vives, leikmaður Tindastóls, blaðamanni Feykis en hún og stalla hennar, Beatriz Salas báðu um að fá þessa mynd tekna af þeim.

„Allur kvennafótboltaheimurinn hefur komið fram til stuðnings Jennifer og öllum þeim konum sem verða fyrir kynferðislegum árásum og misnotkun eða áreitni. Og í dag tók allt kvennalið Tindastóls undir þetta málefni,“ bætti Marta við.

Málið snýst um að Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, kyssti fyrirliða spænska landsliðsins á munninn við verðlaunaafhendingu eftir að lið Spánar varð heimsmeistari. Hann hafði einnig gripið um klofið á sér í kjölfar á sigurmarki Spánverja. Hafa allir leikmenn spænska liðsins ákveðið að spila ekki fyrir landsliðið nema Rubiales segi af sér en hann sér ekki ástæðu til þess – og því tekist að ræna leikmenn Spánar gleðinni og stoltinu af því að verða heimsmeistarar í fyrsta skipti í sögunni með því að láta allt snúast um sig. Það verður að teljast afar ólíklegt að honum verði til setunnar boðið þar sem framferði hans hefur vakið hneykslan og hann verið harðlega gagnrýndur.

Hvað fótboltann á Ísland varðar segir Marta að hún og Beatriz hafi nú verið á Sauðárkróki að berjast fyrir lið og liti Tindastóls í rúman mánuð. „Við erum satt að segja mjög ánægðar hér vegna þess hvernig samfélagið og liðsfélagar okkar hafa tekið á móti okkur. Við hlökkum til að halda áfram að berjast fyrir því að halda liðinu í Bestu deildinni, þar sem þetta félag á í raun heima. Við elskum Sauðárkrók og Tindastól!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir