Topplið Grindavíkur reyndist of stór biti fyrir Skólastúlkur

Hlutirnir eru ekki alveg að falla með kvennaliði Tindastóls í körfunni. Í gær héldu stelpurnar suður í Grindavík þar sem sterkt lið heimastúlkna beið þeirra. Þrír leikhlutar voru jafnir en einn reyndist Stólastúlkum dýrkeyptur og fjórða tapið í röð því staðreynd. Lokatölur 82-68.

57 áhorfendur mættu í HS Orku-höllina í Grindavík og fengu að upplifa nokkuð öruggan sigur heimaliðsins. Leikurinn var jafn og spennandi allan fyrsta leikhluta, staðan jöfn 20-20 að honum loknum, en eftir þriggja mínútna leik í öðrum leikhluta var heimaliðið komið með fimm stiga forystu, 29-24, og tveimur mínútum síðar munaði tíu stigum. Staðan í hálfleik var 48-34 og mestur varð munurinn á liðunum 21 stig um miðjan þriðja leikhluta, 59-38. Í kjölfarið náðu Stólastúlkur 10-2 kafla en staðan 66-49 að loknum þriðja fjórðungi. Lið Tindastóls var þó ekkert á þeim buxunum að gefast upp þrátt fyrir mótlætið. Inga Sólveig minnkaði muninn í tíu stig, 66-56, þegar sex mínútur voru til leiksloka og þristur frá Martinez þegar þrjár mínútur voru eftir kom muninum í átta stig, 70-62. Grindvíkingar svöruðu með sjö stigum í röð og jörðuðu þar með endurkomudrauma Stólastúlkna.

Það komu aðeins fjögur stig á töfluna frá bekk Tindastóls, sem er dapurt, en merkilegt nokk þá voru það engu að síður helmingi fleiri stig en bekkur Grindvíkinga skilaði. Átta leikmenn af tólf komu við sögu hjá Grindvíkingum en Martín leyfði níu leikmönnum að spreyta sig af tíu sem voru á skýrslu. Það er nokkuð ljóst að deildin í vetur er sterkari en síðast en fyrr en síðar hlýtur annar sigur Stólastúlkna að detta í hús.

Maddie Sutton var sterkust í liði Tindastóls, gerði 19 stig og tók 13 fráköst og þar af sex sóknarfráköst. Marta var með 17 stig, sex fráköst og sex stoðsendingar en skotin voru ekki detta fyrir hana í þetta skiptið. Oceana gerði 18 stig og þar af setti hún fjóra þrista, Alejandra Martinez gerði sjö stig, Brynja Líf 3 og Eva Rún og Inga Sólveig sitt hvor tvö stigin.

Á þriðjudaginn kemur lið Keflvíkinga í heimsókn en þær dökkbláu hafa unnið þrjá leiki og tapað þremur nú í byrjun móts.

Fleiri fréttir