72 nemendur brautskráðir við hátíðlega athöfn

Frá brautskráningu nemenda Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra 2016. Mynd/Hinir sömu.
Frá brautskráningu nemenda Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra 2016. Mynd/Hinir sömu.

Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra var slitið í 37. sinn við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki laugardaginn 28. maí síðastliðinn að viðstöddu fjölmenni. Alls brautskráðust 72 nemendur.

Í máli skólameistara, Ingileifar Oddsdóttur, kom m.a. fram að 2.415 nemendur hafa brautskráðst frá skólanum frá upphafi skólahalds haustið 1979. Fram kom að 492 nemendur voru skráðir á haustönn þar af 83 sem eru 25 ára eða eldri og 512 á vorönn þar af 108 sem eru 25 ára eða eldri.  Hún lagði áherslu á þjónustuhlutverk skólans gagnvart öllum íbúum Norðurlands vestra óháð aldri og mikilvægi landsbyggðarskóla fyrir þau samfélög sem þeir þjóna. Þetta hlutverk fellur illa að takmörkunum á aðgangi eldri nema að skólanum. 

Þá greindi Ingileif frá þeim breytingum sem fylgt hafa nýrri námskrá og nýjum námsbrautum á borð við nám í slátraraiðn og fisktækni sem boðið er fram í samvinnu við Fisktækniskóla Íslands og Farskólann, miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra og FISK Seafood, en skólinn hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á gott samstarf við atvinnulífið á Norðurlandi vestra. Loks þakkaði hún þeim fjölmörgu fyrirtækjum og stofnunum sem komið hafa að samstarfi við skólann.

Bjarni Jónsson, formaður skólanefndar, flutti vetrarannál skólans. Þar sem farið var yfir helstu viðburði og minnti á að hann brautskráðist sjálfur frá skólanum fyrir 30 árum síðan og ávarpaði nemendur sem slíkur. Fram kom m.a. í máli hans að Ásbjörn Karlsson, sem gegnt hefur starfi áfangastjóra frá því í janúar 1982 lætur af störfum vegna aldurs. Við starfi hans tekur Kristján Bjarni Halldórsson.

Að loknum vetrarannál fór fram brautskráning og afhending viðurkenninga, sem var í höndum skólameistara og deildarstjóra skólans. Alls brautskráðust 72 nemendur af eftirtöldum námsbrautum sem hér segir:

  • Stúdentsprófsbrautir:                33
  • Iðnbraut í bifvélavirkjun:             1
  • Iðnbraut í rafvirkjun:                  6
  • Iðnbraut í vélvirkjun:                    1
  • Sjúkraliðabraut:                         2
  • Nýsköpunar og tæknibraut:       2
  • Kvikmyndagerð:                       1
  • Vélstjórnarbraut A:                    5
  • Vélstjórnarbraut B:                    1
  • Slátrarabraut:                            3
  • Fistæknibraut:                          18

Guðrún Helga Magnúsdóttir og Hákon Ingi Stefánsson fluttu ávarp brautskráðra nemenda og Eyþór Einarsson flutti ávarp 20 ára stúdenta.

Að lokum flutti skólameistari brautskráðum nemendum heilræði fyrir lífið, óskaði þeim velfarnaðar og sagði skólanum slitið.

Eftirtaldir nemendur fengu viðurkenningar:

Ólína Sif Einarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi  alhliða  námsárangur á stúdentsprófi viðskipta- og hagfræðibrautar. Hún hlaut einnig viðurkenningu frá Lionsklúbbi Sauðárkróks úr Minningarsjóði  Tómasar Hallgrímssonar fyrir framúrskarandi  námsárangur í viðskiptagreinum á stúdentsprófi. Hún hlýtur einnig viðurkenningu frá Hugvísindasviði Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur í erlendum tungumálum á stúdentsprófi. Hún hlaut að lokum viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í þýsku á stúdentsprófi.      

Hákon Ingi Stefánsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum  rafvirkjunar.

Sjúkraliðar:

Ingibjörg Þórólfsdóttir fékk gjöf frá Gideonfélaginu á Íslandi

Kjartan Berg Rútsson fékk gjöf frá Gideonfélaginu á Íslandi

Meðfylgjandi myndir tóku Hinir sömu; Óli Arnar Brynjarsson og Pétur Ingi Björnsson. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir