Guðjón Ingimundar og Bogga skipa stóran sess í Skagfirðingabók 40

Sölvi Sveinsson les upp úr Skagfirðingabók 40. Gestir með grímur í bakgrunni. MYNDIR: ÓAB
Sölvi Sveinsson les upp úr Skagfirðingabók 40. Gestir með grímur í bakgrunni. MYNDIR: ÓAB

Í gær fór fram útgáfuhátíð í Safnahúsi Skagfirðinga í tilefni af útkomu 40. bindis Skagfirðingabókar. Þar var bókin kynnt og höfð til sölu á kynningarverði en ágætis mæting var á samkomuna þó flestir hafi sennilega haft tengsl við megin umfjöllunarefni bókarinnar, Guðjón Ingimundar og Boggu. Það er Sögufélag Skagfirðinga sem gefur út Skagfirðingabók.

Hjalti Pálsson frá Hofi sagði frá efni bókarinnar en þrátt fyrir að Guðjón og Bogga hafi fengið óvenju ríkulegt pláss í bókinni þá prýða bókina tíu greinar. Þar á meðal eru tvær afmælisgreinar um merka Skagfirðinga. Fyrst skal telja merkasta myndhöggvara Dana, Thorvaldsen, en í ár eru 250 ár síðan hann fæddist á Skagafirði. Þá eru nú 200 ár frá fæðingu Sölva Helgasonar, eða Sólon Íslandus, sem var þekktur sem flakkari, listamaður og heimspekingur á 19. öld.

Sölvi Sveinsson er höfundur höfuðgreinar bókarinnar um heiðurshjónin Boggu og Guðjón Ingimundar. Sölvi kynnti greinina fyrir gestum og las upp úr bókinni. Birgir Guðjónsson fylgdi fast á hæla Sölva og sagði frá foreldrum sínum og uppvaxarárunum á Króknum, lýsti heimilislífinu og ferðalögum fjölskyldunnar skemmtilega. Síðust í pontu var Sólborg Una Pálsdóttir, héraðsskjalavörður hjá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga, en hún sagði frá skráningu ljósmyndasafns Guðjóns og ýmsu fleiru sem tengdist honum sem unnið er að hjá safninu.

Að lokum var grímuklæddum gestum boðið upp á kaffi, kleinur og pönnsur.

Bókin var sett hjá Nýprenti í ársbyrjun og var komin úr prenti í apríl. Sökum ástandsins í heiminum var útgáfu frestað fram í september en síðan var ákveðið að útgáfuhátíð yrði á Sæluviku, um mánaðarmótin september-október. Enn á ný setti faraldurinn strik í reikninginn og Sæluvikan var blásin af. Útgáfuhátíðin fór þó fram í gær og ekki verður annað sagt en að Skagfirðingar hafi verið til fyrirmyndar og gætt að sér á hátíðinni í gær, langflestir með grímur og sprittaðar hendur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir