Haugsuga notuð við slökkvistarf á jarðýtu

Jarðýta brann skammt frá bænum Viðvík í Skagafirði. Mynd/Guðríður Magnúsdóttir.
Jarðýta brann skammt frá bænum Viðvík í Skagafirði. Mynd/Guðríður Magnúsdóttir.

Eldur kviknaði í jarðýtu skammt frá bænum Viðvík í Skagafirði, þar sem hún var að vinna við nýrækt. Tilkynning um brunann barst til Brunavarna Skagafjarðar um kl. 18:30. Að sögn Vernharðs Guðnasonar slökkvistjóra var erfitt að komast að ýtunni og naut slökkviliðið aðstoðar bænda við slökkvistarfið. 

Þegar við komum á staðinn var jarðýtan alelda og við nutum aðstoðar bænda við að slökkva í henni. Það var erfitt að komast að henni en hún var langt út í nýrækt og yfir tún að fara þannig að við komum ekki okkar tækjum að, þannig að þeir hjálpuðu okkur með haugsugu,“ segir Vernharð. 

Vernharð segir að það hafi ekki bætt úr skák hve vindasamt var í gærkvöldi. „Tjónið var orðið mikið þegar við komum á staðinn. Þetta var yfir tvö eða þrjú tún að fara og svo langt útí einhverju flagi þannig það var ekki hægt að koma neinum venjulegum tækjum að. Með dráttarvél með haugsugu á stórum dekkjum þá hafðist það.“  

Að öðru leyti segir Vernharð slökkvistarf hafa gengið vel en jarðýtan, sem var í sameign nokkurra bænda, er mikið tjónuð.   

Guðríður Magnúsdóttir myndaði atburðinn og þakkar Feykir fyrir leyfi á myndbirtingunni. Fleiri myndir má skoða á Facebook-síðu hennar. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir