Höfðingi heimsækir Blönduós

Höskuldur Birkir Erlingsson á Blönduósi er mikill áhugaljósmyndari og hefur oft á tíðum náð góðum myndum af margvíslegu myndefni. Hann myndaði m.a. haförninn Höfðingja sem fangaður var fyrir skömmu í Miðfirði og þar var erninum svo síðar sleppt eftir skoðun í höfuðborginni. Höfðingi leitaði hinn nýja vin uppi og flaug á Blönduós þar sem Höskuldur náði að fanga hann með myndavélinni.

Höskuldur segir á fésbókarsíðu sinni að hann hefði fengið veður af því að haförn hefði sést við höfnina á Blönduósi fyrr í vikunni svo hann tók rúnt og sá á eftir erninum hvar hann flaug til norðurs og utan „færis“. Í gær renndi Höskuldur niður á höfn svona upp á von og óvon, eins og hann segir. „Og viti menn hann sat í þessu líka fína myndavélarfæri í brúninni ofan við gámana! Ég smellti þessum myndum af honum!“

Í dag segir Höskuldur að hann sé búinn að fá það staðfest að þarna er um örninn Höfðingja að ræða. „Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, þá sést merkið vel. Hann er því greinilega í flottu formi karlinn og búinn að fljúga næstum því 50 km í beinni loftlínu síðan að honum var sleppt (hef reyndar grun um að hann hafi flogið eitthvað lengri leið). Höfðingi saknar mín greinilega,“ segir Höskuldur sem gaf Feyki góðfúslegt leyfi til að birta þessar líka flottu myndir.

Tengdar fréttir:

Elsti haförn landsins handsamaður við Miðfjarðará 

Haförninn Höfðingi floginn á braut 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir