Kirkjugarðurinn á Blönduósi til fyrirmyndar

Upplýsingaskilti í kirkjugarðinum á Blönduósi. MYNDIR FRÁ VALLA OG FLEIRUM
Upplýsingaskilti í kirkjugarðinum á Blönduósi. MYNDIR FRÁ VALLA OG FLEIRUM

Fyrir tilviljun heimsótti blaðamaður Feykis kirkjugarð Blönduóskirkju í sumar og hreifst af umgengninni og þeim framkvæmdum sem átt höfðu sér stað og unnið var að. Bæði var garðurinn snyrtilegur, bílaplan malbikað og bráðsnjallt upplýsingaskilti um garðinn var til fyrirmyndar. Á þeim tíma var verið að undirbúa lagfæringu á stígnum sem liggur um garðinn. Það var því ekki úr vegi að hafa samband við Valdimar Guðmannsson, Valla Blönduósing, formann stjórnar kirkjugarðs Blönduóskirkju og spyrja hann út í framkvæmdirnar.

Kirkjan hefur átt örlítið undir högg að sækja síðustu árin og fréttir um fækkun í þjóðkirkjunni nokkuð algengar. Engu að síður virðast allir hafa skoðun á kirkjunni og hvert hlutverk hennar eigi að vera og þá ekki síður hvort það sé í lagi að teikna Jesú sem barmgóðan, hamingjusaman hippa o.s.frv. Það er þó nokkuð víst að fæstum hugnast að sjá kirkjur og kirkjugarða í niðurníðslu, enda íbúar oft stoltir af sinni kirkju og þær víða bæjarprýði og miðpunktur samfélagsins. Á Blönduósi er nýleg kirkjan sannarlega perla í bænum miðjum. Kirkjugarðurinn er hins vegar staðsettur á brekkunni vestan við Blöndu og gamla Sýslumannsbústaðinn. 

Hvað hefur verið gert í kirkjugarðinum á Blönduósi síðustu 2-3 árin? „Árið 2018 var lokið við að setja upp upplýst ljósaskilti í garðinum, beint á mót inngöngunni í garðinn en fráfarandi stjórn hafði unnið að þessu verkefni um tíma og aðeins var eftir að bæta við nokkrum merktum leiðum, finna staðsetningu fyrir skiltið og fjármagna dæmið. Þetta sama ár var gert bílaplan við garðinn í samvinnu við Blönduósbæ. En rætt hafði verið um nauðsyn þess að koma upp malbikuðu plani utan við garðinn í nokkuð mörg ár. Kostnaður var rúmlega 6 milljónir króna og þar af var hlutur kirkjugarðsins  2.5 milljónir króna en Blönduósbær fjármagnaði restina,“ segir Valli og heldur áfram.

„Árið 2019. var ráðist í það stóra verkefni að gera við allar steypuskemmdir sem komnar voru í kirkjugarðsvegginn þetta verkefni var unnið í samráði við dr. Magga Jóns sem hannaði garðinn á sínum tíma. Samið var við Árna Þorvaldsson múrarameistara úr Mosfelsbæ að vinna verkið. Þessir tveit heiðursmenn, ásamt efnasérfræðingum hjá BM Vallá, völdu efnið sem notað var við viðgerðina á veggnum. Viðgerðirnar tókust mjög vel og liturinn er svipaður og á kirkjunni, enda er hún einnig hönnuð af dr. Magga Jóns.Kostnaður við þetta verkefni var rúmar 4 milljónir króna fyrir utan alla sjálfboðavinnu og aðkomu fyritækja á Blönduósi varðandi fæði verktaka, gistingu fyrir þá og flutning á efni svo eitthvað sé nefnt.

Á sama ári var einnig byrjað að setja upp trékrossa með plötum með nafni, fæðingar- og dánardegi á þekkt en ómerkt leiði.  Kostnaður við hvert leiði er um 12.000 krónur sem garðurinn borgar.

Á þessu ári, 2020, hefur verið haldið áfram með þetta verkefni og eru leiðin nú orðin um 80 sem búið er að merkja og verður það teljast mjög gott. Þá var farið í að endurnýja gamlan göngustíg sem liggur í gegnum garðinn beint á móti sáluhliðinu. Ætlunin var að steypa eða helluleggja hann, en hætt var við það. Í þess stað voru notaðar Ecorster plastmottur frá fyritækinu Ver ehf. en þetta efni er notað víða. Kostnaður við stíginnvar var um 400.000,- krónur og greiðir Blönduósbær helminginn af kostnaðinum.

Síðasta verkefnið sem við erum með á prjónunum er bygging á 23 fm geymsluhúsnæði fyrir garðinn sem mikil þörf er á. Garðurinn er með ýmsa hluti í geymslu út um allan bæ, svo sem kerruna sem geymir sigbúnaðinn sem notaður er í öllum kirkjugörðum hér í Austur-Húnavatnssýslu, stóran jólakross sem ávalt er settur upp fyrir jólin og margt fleira. Kostnaðaráætlun við þessa byggingu er um 2,5 milljónir króna. Efnið í húsið er innflutt frá Póllandi. Hægt var að staðgreiða húsið hingað komið á Blönduós. Frjálsa kótilettufélagið safnaði einni milljón króna þegar haldið var upp á fimm ára afmæli þess haustið 2019. Þá eins og ávalt voru allir boðnir og búnir að hjálpa og gefa bæði vinnu, efni, húsaleigu, skemmtiatriði og fleira. Fjármögnun stendur nú yfir á því sem út af stendur, eða um 1,5 milljón króna, en stefnt er á að koma þessu húsi upp áður en vetur konungur fer að sýna sig fyrir alvöru.“

Hverjir standa að framkvæmdunum? „Stjórn kirkjugarðsins ásamt umsjónarmanni hefur haldið utan um allar framkvæmdir og verið í stanslausum fjáröflunum og reddingum. Allar þessar framkvæmdir eru unnar í góðu samráði við Blönduósbæ enda tekur hann þátt í kostnaði við sum verkefnin. Þá hafa starfsmenn Kirkjugarðasambands  Íslands á Biskupsstofu verið með í öllum ákvörðunum og stutt við bakið á okkur.“

Í garðinum er kort sem sýnir hvar hver og einn er jarðaður. Segðu okkur aðeins frá þessu. „Eins og áður hefur komið fram var þetta skilti sett upp 2018. Í fyrsta lagi er saga garðsins rakin í stutt máli en á árum áður var kirkjugarðurinn fyrir Blönduóssókn staðsettur á Hjaltabakka sem er hér skammt frá.

Svo eru á skiltinu nöfn allra sem vitað er um í garðinum og númer leiða, þá er mynd af öllum garðinum þar sem hvert leiði hefur sitt númer og á það að auðvalda þeim sem heimsækja garðinn að finna þau leiði sem leitað er að. Þetta var mikil vinna sem fólst m.a. í að fara yfir kirkjubækur, Húnavöku (sérstaklega eldri árganga þess), ásamt fleiri heimildum sem bornar voru saman. Þessi vinna var að mestu leiti unnin að Hávarði Sigurjónssyni, umsjónamanni garðsins, og Þórhöllu Guðbjartsdóttur, stjórnamanni, en margir fleiri hjálpuðu til við þessa vinnu til að gera þetta sem best úr garði. Nú er þetta efni allt aðgengilegt á garður.is

Nú má sennilega fullyrða að flestar kirkjur landsins, og þar með kirkjugarðar, standa ekki vel fjárhagslega. Hvernig hefur gengið að fjármagna framkvæmdirnar? „Þegar byrjað var á þessum framkvæmdum var buddan nánast tóm eins og  hjá flestum kirkjugörðum landsins eftir hrun,“ segir Valli. „En með sameinlegu átaki fyritækja, einstaklinga og félagasamtaka hefur tekist að fjármagna hverja framkvæmd fyrir sig, t.d viðgerðin á kirkjugarðsveggnum, þar kom um ein milljón króna bara í frjálsum framlögum og svo hefur verið við flestar framkvæmdirnar. Þá gerði Blönduósbær vel, bæði við bílaplanið og göngustíginn.

Einnig hafa fengist framlög frá Kirkjugarðssjóði sem hefur öll árin lagt til framlag til garðsins svo um munar,“ segir Valli að lokum.

Þegar viðtalið var tekið vantaði enn nokkuð upp á að síðasta framkvæmdin, bygging geymsluhúsnæðisins, væri full fjármögnuð. Það er því við hæfi að minna á reikningsnúmer kirkjugarðsins á Blönduósi, eða Lukkureikninginn eins og stjórn garðsins kallar hann. Reikningurnn er nr. 0307-13-600603 og kennitala garðsins er 460300-3980.

- - - - - 
Viðtalið birtist fyrst í 37. tbl. Feykis 2020. Myndir úr ýmsum áttum en flestar frá Valla sjálfum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir