Lambadagur í Þráarhöllinni á Hólum

Flott saman á lambasýningu. Myndirnar tók Þórdís Halldórsdóttir.
Flott saman á lambasýningu. Myndirnar tók Þórdís Halldórsdóttir.

Sauðfjárræktarfélagið Kolbeinn og Búnaðarfélag Hofshrepps stóðu fyrir Lambadegi í Þráarhöllinni á Hólum þann 13. október síðastliðinn. Að sögn Þórdísar  Halldórsdóttur, formanns Kolbeins, var vel mætt af bændum í félögunum tveimur og fólki sem kom bara til að skoða og sjá og er hún við hæstánægð með viðtökurnar.

„Agnar á Miklabæ sá um að vera kynnir fyrir okkur og gerði það með stakri prýði. Gunnar á Ökrum og Sigurður á Ysta-Mói voru dómarar og röðuðu hrútum og skrautgimbrum upp fyrir okkur,“ segir Þórdís og sendir þeim þremur bestu þakkir fyrir daginn.

Keppt var í þremur flokkum í lambhrútakeppni. Kollóttir, mislitir og hvítir hyrndir.

Í kollótta flokknum vann hrútur frá Brekkukoti undan heimahrút upp á 88 stig, í mislita flokknum vann svarflekkóttur Bjartssonur frá Brimnesi með 87 stig og í hvítum hyrndum varð í fyrsta sæti Tvistssonur frá Ytri-Hofdölum upp á 88 stig.

Skrautgimbrakeppni barnanna var tvíþætt. Annars vegar voru veitt verðlaun fyrir skrautlegustu gimbrina frá náttúrunnar hendi og svo best skreyttu gimbrina.

Titilinn „skrautlegasta gimbrin frá náttúrunnar hendi“ hreppti Jökull Máni Nökkvason með skemmtilega kollótta svarflekkótta gimbur. Og best skreytta gimbrin var valin hjá þeim Fjólu Indíönu í Víðinesi og Camillu Líf á Laufskálum sem mættu saman með fallega skreytta gimbur.

Forystukapphlaup var nýr dagskrárliður og vakti mikla lukku og heppnaðist mun betur en skipuleggjendum þorðu að vona, að sögn Þórdísar. Það var svartur forystusauður frá Jóhanni Inga í Ásgeirsbrekku sem að tók forystuna og setti gott hraðamet yfir höllina.

Einnig var annar nýr dagskrárliður kynntur sem var montgimbrin. Hreinhvít gimbur frá Ytri-Hofdölum fékk titilinn í ár með flest atkvæði.

Happdrættið okkar var einnig á dagskránni eins og síðast og viljum við þakka fyrirtækum sem að styrktu okkur um vinninga kærlega fyrir aðstoðina. Aðalvinningurinn í ár var svarbotnótt lífgimbur frá mér, Ytri-Hofdölum, til að hleypa smá spennu í happdrættið og það fór svo að annar dómarinn hreppti gimbrina, Siggi á Ysta Mói,“ segir Þórdís.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í Feyki sem kemur út í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir