Mikið stuð í Tindastól um helgina

Mikið stuð í Stólnum um helgina. Myndir: Sigurður Hauksson.
Mikið stuð í Stólnum um helgina. Myndir: Sigurður Hauksson.

Tindastuð 2023 var haldið í þriðja skiptið sl. laugardag á skíðasvæði Tindastóls. Það var mikið um að vera frá morgni til kvölds, Íslandsmeistaramót í snocrossi, skíða- og snjóbrettaupplifun í brekkunum og tónleikar um kvöldið. Sigurður Hauksson, staðarhaldari skíðasvæðisins, sagðist vera að ná sér eftir átök helgarinnar er Feykir náði tali af honum gær.

„Þetta gekk mjög vel allt saman og við duttum í lukkupottinn með veðrið loksins. Mínum bænum hefur verið svarað, nýr snjór, sól og blíða og hreyfði ekki vind,“ sagði Sigurður glaður í bragði. Fjöldi keppenda tók þátt í snocross keppninni sem var hið fjórða í Íslandsmeistaramótaröðinni en það fimmta og jafnframt það síðasta fer fram 15. apríl á Egilsstöðum. Áður hefur verið keppt á Ólafsfirði, Akureyri og við Mývatn.

Margir mættu í fjallið ýmist til að fylgjast með keppninni eða renna sér í brekkunum og sagði Sigurður að bílaröð sitthvoru megin vegarins hefði náð niður að beygju um kílómetra frá bílastæði, sem einnig var fullnýtt.

Hann segir að eftir keppnina hafi svæðinu verið lokað um klukkan fjögur en opnað aftur hálfsjö þegar tónlistardagskrá hófst.

„Ari brettakappi var að „dj-a“ þegar fólk mætti en þá var sviðið komið upp og svo hófst formleg dagskrá klukkan átta. Þá fóru Daniil, Valdís, MC Gauti og Úlfur Úlfur á svið.

Þetta var algjör snillld, rosa góð mæting, mikið af Króksurum í ár sem var jákvætt, og geggjað veður. Sólsetur var alveg upp á tíu og svo komu norðurljósin þegar Úlfur Úlfur steig á svið og dönsuðu í takt við tónlistina. Þetta hefði ekki getað verið betra,“ lýsir Sigurður stemningunni sem hann segir nokkuð frábrugðna þeirri er veðurguðirnir buðu upp á fyrir ári síðan en þá var hvasst og rigning.

Aðspurður um aðstæður á skíðasvæðinu segir Sigurður að svo virðist sem öllum hans bænum hafi verið svarað síðustu tvær vikur. „Snjórinn er mættur en það lá við að skíðasvæðinu yrði lokað fyrir tveimur vikum, það var það lítill snjór og ekkert hægt að gera. Páskarnir líta mjög vel út og efri lyftan komin í gang. Loksins kominn snjór á það svæði líka. Það er bara jákvætt.“

Hér fyrir neðan má sjá samantekt um vélsleðamótið í þættinum Snocross Pitturinn á YouTube.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir