Olíutankarnir á Króknum fara á Vestfirðina

Fyrsti tankurinn kominn á bíl sl. mánudag. Flutningur tankanna niður á höfn gekk vel og áætlað er að þeir fyrstu fari í skip á morgun. Myndir: PF.
Fyrsti tankurinn kominn á bíl sl. mánudag. Flutningur tankanna niður á höfn gekk vel og áætlað er að þeir fyrstu fari í skip á morgun. Myndir: PF.

Búið er að fjarlægja olíutanka Olíudreifingar, sem mikinn svip hafa sett á umhverfi Eyrarinnar á Sauðárkróki, af stöllum sínum og bíða komu norska flutningaskipsins Rotsund sem mun flytja þá á Vestfirði þar sem þeirra bíður annað hlutverk.

Það er íslenska fyrirtækið Arctic Protein, sem keypti tankana en það fyrirtæki sérhæfir sig í að þjónusta laxeldisfyrirtæki, útgerðir og aðra framleiðendur á fiski með því að taka við því hráefni sem ekki er nýtt til manneldis.

Að sögn Víðis Arnar Guðmundssonar, framkvæmdarstjóra Arctic Protein, verða tankarnir nýttir sem meltugeymar á Vestfjörðum en þrír þeirra fara á Patreksfjörð, einn fer til Bíldudals og einn á Þingeyri. „Við framleiðum bæði KAT 2 og KAT 3 meltu, sem er síðar flutt út í áframvinnslu til Noregs. Fullunnu vörurnar eru svo ýmist nýttar sem fóður, lífgas eða áburður,“ segir Víðir.

Tankarnir voru fluttir sl. mánudag og eru nú staðsettir á höfninni en áætlað er að þeir verði hífðir um borð í Rotsund á morgun. Að sögn Páls Sighvatssonar, forstöðumanns Vélaverkstæðis KS, gekk flutningurinn vel en það var á verksviði Vélaverkstæðis að undirbúa tankana fyrir flutninginn.

„Það gekk mjög vel. Það var fenginn 100 tonna krani frá Kranabílum Norðurlands sem hífði þá á bíla og Steypustöð Skagafjarðar sá um að flytja þá. Við byrjuðum rétt eftir eitt og búið var að koma þeim á sinn stað um níu leytið um kvöldið. Okkar hlutur var að setja festingar á og tæma lagnir þannig að hægt væri að ganga að þessu verki,“ segir Páll sem finnst sjónarsviptir af þeim. „Maður á eftir að venjast því að sjá höfnina svona en það eru alltaf breytingar.“

Páll telur tankana vera í góðu ásigkomulagi og munu efalaust nýtast nýju eigendunum vel þrátt fyrir að þeir séu komnir til ára sinna. Sá elsti þeirra fimm er byggður 1949 en sá yngsti er frá árinu 1988.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir