Steinullarmótið fer senn að hefjast í sól og sumarblíðu

Beðið eftir að mótið hefjist. MYNDIR: ÓAB
Beðið eftir að mótið hefjist. MYNDIR: ÓAB

Steinullarmótið í knattspyrnu sem ætlað er stúlkum í 6. flokki hefst kl. 15:30 í dag en snarpur suðvestanskellur gerði þátttakendum og þeim sem fylgdu erfitt fyrir í gær. Nú er veður hins vegar orðið þrusugott þó enn blási nú aðeins af suðri og hitinn nálægt 20 gráðunum. Það er því aðeins beðið eftir að síðustu liðin skili sér á Krókinn en samkvæmt upplýsingum frá Helga Margeirs, mótsstjóra, þá hafa engin lið boðað forföll.

„Ekkert lið boðað afföll,“ svaraði Helgi fyrirspurn Feykis, „allir svo ánægðir með að mótið verði haldið, enda stærsta mót á Íslandi fyrir 6fl. kvenna og erum við að gera allt til að gera mótið sem glæsilegast. Mótstjórnin hefur staðið sig ótrúlega vel undir gríðarlegu álagi þar sem allt plan mótsins sem var klárt á miðvikudagskvöldið fór í vaskinn á fimmtudegi út af veðurspá næstu daga á eftir. Ég vil því fá að nýta tækifærið til að þakka þeim sérstaklega fyrir óeigingjarnt starf síðustu daga.“

Sem fyrr segir var bálhvasst í gær og fram á nótt og tvísýnt með mótshald. „Með samstilltu átaki samfélagsins hér á Sauðárkróki tókst okkur að koma öllum í inni gistingu sem óskuðu þess. Opnuðum nýtt tjaldsvæði á íþróttahúsplaninu með aðgang að snyrtingum og rafmagni þökk sé Tengli rafverktökum.“ Helgi segist ekki vita um nein óhöpp sem hlutust af rokinu og segist vænta þess að allir hafi farið inní draumalandið óskandi þess að mótið gæti hafist í dag – sem það mun gera kl.15:30.

Blaðamaður Feykis rakst á foreldri á tjaldsvæðinu á Nöfum og sagðist kappinn hafa komið í bæinn á fimmtudag og komið fellihýsinu vel fyrir. Hann hefði verið farinn að hafa svolitlar áhyggjur í hvassviðrinu í gærdag og fram eftir kvöldi en sagði að nóttin hefði verið ágæt. Sem fyrr segir þá blæs enn en veðrið í raun orðið ágætt og sennilega hlýjasti dagur ársins í dag. Spáin fyrir nóttina og morgundaginn er fín og stefnir í hlýindi og stillt veður á morgun.

Flestir keppendur koma að en aðeins tíu stúlkur frá Tindastóli taka þátt í mótinu og segir Helgi mikla ábyrgð hjá Tindastóli og mótsstjórn að gefast ekki upp og aflýsa mótinu en talsvert af fólki var þegar komið á Krókinn á miðvikudag. Ekki er útlit fyrir annað en að öll dagskrá haldi sér þó einhverjar breytingar verði væntanlega á tímasetningum. Þannig er kvöldvaka með Helga Sæmundi og Sölku Sól í kvöld. „Krakkarnir fóru í morgunmat og öðrum boðið að kaupa sig inn í hann í morgun, svo er hádegismatur núna að hefjast og foreldrar og aðrir geta pantað hamborgartilboð frá okkur og svo er bíósýning sem var sett á í gær í íþróttasalnum klukkan 13,“ segir Helgi og bætir við í lokin að systkinamót fyrir 8. flokk hefjist nú klukkan tvö.

Það stefnir því í stórgott Steinullarmót á Króknum þrátt fyrir að á móti blési til að byrja með. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem blaðamaður tók um hádegið í morgun og þá sleyktu Króksarar og gestir þeirra sólina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir